154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð breytingar á útlendingalögum. Lögin varða viðkvæma hagsmuni einstaklinga og hafa fjölþætt áhrif á samfélagið allt. Ég er stolt af vinnunni sem fór fram við heildarendurskoðun útlendingalaga sem tóku gildi 2017. Sú endurskoðun er nefnilega grundvöllur þess að við getum nú unnið að umbótum í takt við það sem er að gerast í heiminum og í löggjöf nágrannalandanna. Það er mikilvægt að á þessu sviði sé unnið á breiðum grunni, þvert á stjórnmálin og samfélagið allt og út fyrir landsteinana. Verkefnið þarf að nálgast af virðingu, forðast skautun, upphrópanir og einföldun á flóknum veruleika einstaklinga. Við þurfum stöðuga vinnu með málefni útlendinga og innflytjenda í síbreytilegum heimi, m.a. lagabreytingar. Ég fagna heildarsýn ríkisstjórnarinnar í málaflokknum og legg áherslu á áframhald breiðrar samvinnu.