154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:27]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tel hér verið að vinna gegn inngildingu vegna þess að ef fjölskyldur fá ekki að sameinast þá er fólk ekki rólegt, sefur ekki rótt á nóttunni. Þú aðlagast ekki samfélagi þegar fjölskyldan þín og börnin þín búa við stríðsástand. Það er bara þannig. Það er mjög einfalt. Fjölskylda er verndandi þáttur í inngildingu. Mér finnst undarlegt að við séum að ræða hér að fjölskyldur megi ekki vera saman og finnst mér það sérstaklega merkilegt þar sem við erum hér með hæstv. barna- og menntamálaráðherra sem á að standa vörð um hagsmuni allra barna og hans flokkur. Þess vegna skil ég ekki hvernig þau geta komist að þeirri niðurstöðu, ef það er svo, að það sé þeim fyrir bestu að vera án foreldra sinna í stríðsástandi.