154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég segi nei og það er af því að það eru þegar skilgreiningar í lögum einmitt um það hvað teljist vera alvarlegt brot, hversu alvarlegt brotið þarf að vera o.s.frv. Það eru mörk um þrjá mánuði og eitt ár og mun nákvæmari lýsingar á því hvað er alvarlegt brot heldur en er í þessari breytingartillögu. Ég tel núgildandi lög dekka það sem þessari breytingartillögu er ætlað að gera. Ég skil alveg hvaðan hún kemur en mér finnst hún ekki nægilega nákvæm, hún skilgreinir ekki nákvæmlega hvað er alvarlegt brot o.s.frv. Núna er búið að uppfæra lögin frá því sem þau voru áður. Þau eru orðin nákvæmari, það er búið að skilgreina tímafresti o.s.frv. Ég alla vega get ekki samþykkt þetta eins og það er í þessu formi. Ég hefði viljað betri greiningu á því hvaða afleiðingar þetta hefur. Það sem er undir er mögulega að senda fólk bara í dauðann, (Forseti hringir.) senda fólk til baka ef það fremur brot og íslenska ríkið telur það vera nægilega alvarlegt brot til að senda fólk á brott (Forseti hringir.) sem annars hefði kannski verið árs fangelsi eða eitthvað því um líkt. En fólk getur lent í aðstæðum í heimalandi sem einfaldlega leiða til dauða þess. (Forseti hringir.) Ég er ekki tilbúinn til að samþykkja svoleiðis.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að þingmenn hafa eina mínútu til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu.)