138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að hv. þm. Ásmundur Daðason hafi einhverja aðra innsýn í völundarhús fjármálaráðuneytisins en ég hef, en ég þekki ekki þessa tölu um 6 milljarða. Þvert á móti mun Evrópusambandið leggja um 6 milljarða hið minnsta til Íslands í undanfara þessarar ákvörðunar okkar.

Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli hins vegar er það að hv. þingmaður virðist ekki gera sér grein fyrir því að við Íslendingar og Alþingi Íslendinga erum stöðugt að laga okkur að Evrópusambandinu. Við erum stöðugt að innleiða hér gerðir í gegnum EES-samninginn, stundum finnst manni fullmikið af því góða en það er staðreyndin. Það eru gerðir, tilskipanir, sem við höfum ekki haft nokkra lýðræðislega aðkomu að. Breytingin með því að við göngum í Evrópusambandið er þá sú að hv. þm. Ásmundur Daðason, sem mundi sóma sér vel sem kommissar Íslendinga í Brussel, hefur þá möguleika á því að koma að sjálfri samningsgerðinni og það er það sem skiptir máli og (Forseti hringir.) í því felst lýðræðið.