138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þrjár spurningar til hv. þingmanns.

1. Hæstv. utanríkisráðherra sagðist í ræðu sinni áðan vonast til þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, ræddi Evrópumálin á grundvelli raka. Getur formaður utanríkismálanefndar tekið undir það, sem var undirliggjandi í ummælum hæstv. ráðherra, að hingað til hefði málflutningur hæstv. ráðherra verið byggður á rökleysu?

2. Varðandi kostnaðinn. Telur hv. þingmaður verjandi að verja jafnvel 7 milljörðum króna til að athuga hvort íslenska þjóðin hafi breytt um skoðun?

3. Varðandi loftrýmisgæsluna. Í umræðum um varnarmálastofnun og varnarmálalög fyrr í mánuðinum, sagði hæstv. utanríkisráðherra margoft að þessi lagabreyting mundi ekki hafa áhrif á þau verkefni sem Ísland tæki að sér á grundvelli samninga við Atlantshafsbandalagið. Getur hv. þingmaður fullyrt að svo sé ekki? Mundi þeirri gæslu verða hætt?