138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi það svo að hv. þingmaður væri ekki hrifin af því að ákveðin ríki mundu kljúfa sig út úr myntsamstarfinu. Ég fékk ekki nákvæmt svar við því hvort hún væri fylgjandi því að færa aukin völd til Evrópusambandsins og að efnahagsmál, skattamál, fjárlagagerð og hugsanlega eftirlit með fjárlagagerð og fjárlögum viðkomandi aðildarríkja yrði lagt undir Evrópusambandið. Er það eitthvað sem hv. þingmaður talar fyrir? Þetta er það sem ráðamenn hafa talað um. Þetta er það sem fræðimenn hafa talað um. Þetta tengist ekki hagsveiflunum innan Evrópusambandsins, heldur þeim tækjum sem notuð eru og að evrusvæðið sé allt eitt ríki. Menn tala um það núna að þetta verði að líkjast Bandaríkjunum meira og þetta verði Bandaríki Evrópu. Mig langaði að fá svar við því hvort hv. þingmaður væri hrifin af því að Ísland gengi inn í sambandið, ef þetta er það sem við horfum fram á?