138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú helsti gallinn á Evrópusambandinu í mínum augum, að því er stýrt af hægri flokkum Evrópu.

Mér þótti ræða hv. þingmanns athyglisverð, ég hafði beðið eftir henni því að hér í dag hafa ýmsir talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem hafa haft heldur léttvæg rök gegn Evrópusambandsaðild, svo sem varðandi kostnað upp á einn milljarð, stofnanastrúktúr og uppstokkun, það eru einu rökin sem hafa komið fram. Hér hafa fáir talað um sjávarútveg eða um fullveldi og enginn um evruna og gjaldmiðilinn fyrr en hv. þingmaður núna.

Ég er algerlega ósammála öllu því sem hv. þingmaður sagði. Ég er algjörlega ósammála honum t.d. um að það sé betra að hafa litla mynt, krónuna í okkar tilviki, sem stjórntæki og nota gengisfellingar til þess að ráða bug á efnahagsvanda. Við Íslendingar höfum séð hvað það hafði í för með sér: Tvöföldun skulda mjög stórs hluta þeirra sem hafa verið að kaupa sér fasteignir á síðustu árum. Þetta er málefnalegt hjá hv. þingmanni. Þetta er skoðun en ég er henni algjörlega ósammála.

Sömuleiðis tel ég að hv. þingmaður gangi út frá því að að aðild að myntbandalaginu leysi menn með einhverjum hætti undan því að sinna almennilegri hagstjórn. Það sem Grikkir og önnur Suður-Evrópuríki gerðu var að þau tengdu fram hjá, höfðu jafnvel rangt við, eins og fullyrt hefur verið af þýskum stjórnmálamönnum. Þeir hafa gengist við því að hluta til. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi komið í ljós einmitt varðandi Grikkland hvað það skipti þá miklu máli að vera í myntbandalagi. Þeir höfðu bakhjarl. Þeir höfðu Evrópusambandið. Það kom þeim til bjargar. Það var enginn sem kom Íslendingum til bjargar af því við höfðum engan bakhjarl. Þetta er stóri munurinn.

Evran fríar engan ábyrgð, hv. þingmaður. Og ef hv. þingmaður hefði rétt fyrir sér væru væntanlega einhver evrulandanna að velta því fyrir sér núna að fara út úr evrusvæðinu. (Forseti hringir.) Ekkert þeirra er að gera það. Þvert á móti er eitt ríki að ganga í myntbandalagið í þessari viku, tvö bíða. Það er enginn að tala um að fara þaðan út.