139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:06]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Spurningin er mjög einföld. Í því þingmáli sem hv. þingmaður styður segir frá því að í tiltekinni fundargerð, sem ekki hefur komið fram hvort sé opinber eða ekki eða hvort flutningsmenn hafa lesið í raun og veru eða ekki, segi þetta, með leyfi forseta:

„Þá greindi [A] frá því að hann hefði orðið vitni af því að [B] alþingismaður hefði verið í sambandi við fólk utan hússins og virst vera að veita þeim upplýsingar um viðbúnað lögreglu.“

Ég spyr ósköp einfaldlega: Er það samtal sem hv. þingmaður var að segja okkur frá hér eins og fyrir hverjum öðrum dómi endurspeglun af því samtali? Er hv. þm. Jón Gunnarsson herra A?