139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu með frekar sakleysislegu yfirbragði eins og ég nefndi áðan. Ef ekki væri lesið á milli lína mætti halda að sú siðapredikun sem hljómaði úr munni hv. 1. flutningsmanns í gær væri hér á ferð endurunnin. Um er að ræða tillögu um að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd til að rannsaka hvort þingmenn, og ráðherrar sérstaklega, hafi gerst brotlegir við lög í búsáhaldabyltingunni í janúar 2009 og hvort þeir hafi bakað sér refsiábyrgð, hvort athafnir þeirra hafi brotið í bága við ákvæði laga og hvort þeir hafi brotið starfsskyldur sínar, gerst sekir um mistök eða vanrækslu í starfi eða brotið gegn refsiákvæðum laga.

Ég verð að segja, herra forseti, að við settum niður rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að skoða framferði í aðdraganda að hruninu. Ég verð að segja eins og er, og ég nefndi það áðan, að þetta eru hins vegar mjög miklar og bólgnar umbúðir utan um lítið mál, hefndaraðgerð sem hér er færð í fallegan búning.

Ég vil segja, vegna orða hv. þm. Jóns Gunnarssonar og reyndar líka hv. flutningsmanns, að ég sé ekkert athugavert við það, og mér finnst það bara dásamlegt, ef Framsóknarflokkurinn vill núna fara að rannsaka fortíðina. Það er kominn tími til og guð láti gott á vita. Við skulum þá bara rannsaka og rannsaka og það mun ekki standa á mér að samþykkja þessa tillögu, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. En tilurð hennar og tilgangur er afspyrnuómerkilegur, það verð ég að segja. Það er beinlínis hlægilegt að þessi hv. þingmaður, sem segist hafa lagt svo mikla vinnu í þetta, hafi í gær verið að predika yfir þingmönnum hvernig þeir ættu að tala hver við annan. Hann uppsker nú væntanlega í dag svo sem hann sáði til, reyndar í nóvember í fyrra.

Hér er allt of mikið á sig lagt af hálfu hv. þingmanns. Það eru allt of miklar umbúðir, það sjá allir í gegnum þetta, tillagan snýr fyrst og síðast að þingmönnum Vinstri grænna og hún snýst einkum og sér í lagi um þann þingmann sem hér stendur í ræðustól. Hv. þingmaður hefur hins vegar ekki haft dug til að viðurkenna það. Til þess hefur hann haft aðra rödd í salnum, rödd hv. þm. Jóns Gunnarssonar.

Þegar Framsóknarflokkurinn fær nú tækifæri til að velja eitt mál til að mæla fyrir á þessu vori þá er þetta málið að rannsaka sérstaklega háttsemi þeirrar sem hér stendur og fyrir siða sakir háttsemi allra hinna 62 sem voru á þingi frá október 2008 fram í janúar 2009. Það er ekki minna.

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er í þessu skjali, eins og greinargerðin ber vott um, að lepja upp þvætting og hreinar lygar sem runnar eru undan rifjum kaldastríðskarlsins Björns Bjarnasonar og hans hirðar innan þings og utan, lygaþvætting og slúður sem því miður rataði alla leið inn í fundargerðarbækur forsætisnefndar Alþingis. Ég hef, herra forseti, átt í tölvupóstssamskiptum við hæstv. forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, vegna þessara fundargerða og það er þess vegna sem ég tel nauðsynlegt að hæstv. forseti sé viðstaddur þessa umræða því að ég vil fá leyfi hennar í salnum til að lesa þá tölvupósta sem fóru okkar á milli vegna þessa. Mér var ekki gert viðvart um það að mín persóna væri eitthvað sérstaklega til umræðu í hv. forsætisnefnd á þeim tíma þegar Sturla Böðvarsson, þáverandi þingmaður, var forseti þingsins svo að ég óskaði eftir skýringum. Ég kalla eftir því enn og aftur að hæstv. forseti komi til þings og standi fyrir máli sínu og forsætisnefndar í þessu efni.