140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Farsinn hér á þinginu heldur áfram. Þeir tveir hv. þingmenn, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins, sem spillt hafa fyrir þinglokum, sem troða hér á rétti þingmanna og þjóðarinnar til þess að þingið fari fram með eðlilegum hætti samkvæmt lýðræðislegum leikreglum, sem vilja ekki semja, sem koma hér vansvefta eftir samningaviðræður næturinnar þar sem allt stoppaði, og það var þeim að kenna, koma hér upp og fara að gráta yfir því að óljóst sé hvernig þinginu verði háttað í næstu viku. Pörupiltarnir, strákarnir sem farið hafa um bæinn og eyðilagt, brotið og bramlað og kastað steinum í rúður, koma hér upp á laugardagsmorgni og segja: Mamma, það eru brotnar rúður í húsinu okkar. (Forseti hringir.)