140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um hv. þm. Björn Val Gíslason, ég held að það sé löngu tímabært að forseti fari að lesa þingsköp um það hvenær víta beri þingmenn fyrir ummæli sín og brigsl í garð annarra þingmanna. Það stendur mjög skýrt þar.

Ég bið líka forseta um að funda með þeim hluta stjórnarþingmanna sem tilheyra Hreyfingunni. Þeir virðast standa í þeirri meiningu að þingstörfin snúist um það að blogga úti í bæ en ekki að taka þátt í þingstörfum hér. Þannig bloggar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir um að ríkisstjórnarflokkarnir virðist ætla að koma nokkrum smámálum í gegn en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi neitunarvald í því. Það eru ekki talin nein smámál sem hér eru til umræðu. Hv. þingmaður segir einnig, með leyfi forseta:

„Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að reka þjóðþing við þessar aðstæður. Þessi staða er fáránleg, þingið hefur stritað í allan vetur og komið málum í gegnum nefndir.“

Ég vil minna hv. þingmenn Hreyfingarinnar og (Forseti hringir.) virðulegan forseta á að atvinnuveganefnd var til dæmis atvinnulaus í langan tíma í vetur og fékk einhver stór verkefni inn á borð til sín (Forseti hringir.) á vordögum. Ég hef ekki orðið mikið var við þingmenn þessa flokks í þingsal undanfarna daga. Það er því full ástæða til þess (Forseti hringir.) og tímabært að forseti tali við þessa þingmenn og kynni fyrir (Forseti hringir.) þeim hvernig þingstörf eiga að fara fram út frá þingsköpum.