140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég vildi nota þessa mínútu í er að ræða síðasta atriðið sem hv. þingmaður kom inn á. Umræðan í nefndinni snerist um að það væri eðlilegt að Matvælastofnun hefði ákveðnar heimildir en við vildum líka gæta meðalhófs vegna þeirrar fortíðar sem ég vitnaði til í fyrra andsvari mínu, að það sé eðlilegt að borgararnir njóti eðlilegs réttar og öryggis hvað það varðar.

Ef starfsáætlun þingsins hefði staðist hefðum við hugsanlega klárað þetta mál á grundvelli þess sem nefndin var komin að niðurstöðu um án þess að hafa ítrekað erindi Persónuverndar á breytingartillögunni. Ég spyr hv. þingmann sem er með mikla þingreynslu: Sýnir þetta ekki að við þurfum að fá öll frumvörp, jafnvel svona lítil eins og hér á í hlut, nægilega fljótt inn í þingið til að hafa nægan tíma til að fjalla um þau? Nefndirnar gera líka oft breytingartillögur sem (Forseti hringir.) þurfa oft og tíðum að fara aftur til umsagnar til að tryggja að við séum ekki að gera mistök sem við hefðum þá gert (Forseti hringir.) og gengið þarna á réttindi og öryggi borgaranna hvað varðar álit Persónuverndar.