140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í hádegishléinu var vakin athygli nefndarmanna á því að það væri röng vísun í grein. Frumvarpið mun fara aftur inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til frekari skoðunar.

Já, ég er sammála því að það er ekki búið að taka á þessari hringekju peningaprentunar. Það þarf að koma í veg fyrir það ef við ætlum að vera örugg um að hér verði ekki aftur bankahrun. Það koma núna athyglisverðar sögur úr SpKef, Sparisjóði Keflavíkur, og þar var til dæmis yfirlýsing um að eitthvert fjármagn í skattaparadís væri notað til þess að prenta peninga. Það er einmitt gallinn við „fraksjónalkerfi“, bankakerfi þar sem ekkert þarf að liggja til grundvallar útláni nema hluti af upphæðinni sem innstæða. Þar af leiðandi geta bankar prentað peninga með útgáfu útlána án þess að að baki sé innstæða. Þeir bankar sem núna eru komnir í þrot voru jafnvel að gefa út útlán án þess að veð væru trygg, væru jafnvel bara yfirlýsing um peninga í skattaparadís. Það er ótrúlegur gjörningur í ljósi þess að það gilda og giltu mjög strangar reglur um hvar væri hægt að taka veðin. (Forseti hringir.)