143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég hef sagt á hvaða forsendum ég væri tilbúinn að skoða verkfallsréttinn og þá með tilliti til launakerfisins og kjaranna í samfélaginu almennt, að þeir sem stæðu efst og utan umsamins launabils hefðu ekki réttindi til verkfalla. Við erum ekki að tala um neina slíka hálaunastétt núna. Við erum ekki að gera það.

Mér finnst ósanngjarnt að leggja málið upp með þeim hætti að þarna sé stétt sem sé að reyna að skaða fólk, sé að reyna að valda skaða. Ég hefði haldið að velviljaðri nálgun væri sú að þarna væri stétt sem væri að reyna að bæta kjör sín, kjör félaga sinna og fjölskyldnanna sem standa að þeim. Það er markmiðið með kjarabaráttu.

Auðvitað horfa menn til þess sem er að gerast í samfélaginu almennt. Við lesum viðskiptasíður blaðanna. Við sjáum alla bónusana. (Gripið fram í.) Við sjáum að fjármálakerfið er að endurreisa sig í nákvæmlega sömu mynd og áður var. Við lesum fréttir af ungu fólki sem er að kaupa og selja fyrirtæki og hagnaður þess er talinn í milljörðum króna. Þetta er sá veruleiki sem þetta fólk horfir að sjálfsögðu til líka. Það horfir eflaust til toppanna í sínu fyrirtæki líka, til þeirra sem taka arð út úr því.

Það var ekki að ástæðulausu sem ég greindi frá þessu tilviki með Finnair, sem er raunverulegt dæmi úr samtímanum, þar sem fólkið sagði: Já, ef það eru tímabundnir erfiðleikar skulum við byrja á toppunum. Sýni þeir vilja sinn í verki erum við tilbúin að fara að þeirra dæmi, en það þarf að gerast á réttlátan hátt. Það er þarna sem réttlætið kemur inn í myndina (Forseti hringir.) hjá mér og auðvitað skiptir það miklu máli.