143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel rökin um ríka almannahagsmuni og ég tek þau rök mjög alvarlega. En ég lít einnig svo á að sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna hvað þetta frumvarp varðar sé óhjákvæmileg að einhverju leyti afleiðing Herjólfslaganna, laganna sem við á Alþingi settum fyrr á árinu á verkfall starfsmanna Herjólfs. Hér hefur oft verið sagt að meta þurfi hvert mál fyrir sig, sem er auðvitað jafnan satt. En það er orðið mjög erfitt, virðulegi forseti, vegna þess að það er ekki lengur einstakt eða sérstakt að við setjum lög á verkföll, heldur er þetta gert í því samhengi að þetta er þriðja verkfallsbannið í ár, árið er ekki hálfnað. Sú vegferð hófst með verkfallsbanni þar sem mörk ríkra almannahagsmuna voru sett mjög lágt.

Við getum því ekki litið á þessa kjaradeilu eina og sér vegna þess að hún varð til undir þeim formerkjum að ríkisstjórnin mundi einfaldlega banna verkfallið ef samningar næðust ekki. Þessar aðstæður, sem eru afleiðing Herjólfslaganna, breyta hagsmununum sem eru að verki við samningaviðræður í kjaradeilu, sérstaklega í samgöngumálum væntanlega.

Við þessu var margoft varað þegar Herjólfslögin voru sett. Þá var líka kvartað undan því að við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðum of mikið. En mark ríkra almannahagsmuna var sett svo lágt að vinnuveitendur í samgöngugeiranum hafa hreinlega ekki lengur hagsmuni af því að semja. Þannig er skaðinn í raun þegar skeður. Með Herjólfslögunum voru mörk ríkra almannahagsmuna sett svo lágt að vinnuveitendur í samgöngugeiranum geta gengið að því sem vísu að verkföll séu bönnuð.

Ef þingheimur vill auka heimildir ríkissáttasemjara eða endurskoða verkfallsréttinn á hinum eða þessum forsendum, gott og vel, gerum það. En við erum ekki að því, við erum ekki að gera það núna. Við erum í reynd að slátra verkfallsréttinum hægt og bítandi áður en umræða um endurskoðun hans hefst. Þá verður sú umræða alltaf í því ljósi og undir þeim formerkjum að þetta er þriðja verkfallið í ár sem lög eru sett á. Og það byrjaði á þessum viðvörunarorðum, þannig byrjaði þessi umræða.

Hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði áðan í ræðu sinni að henni þætti óþolandi að þurfa að koma að kjaradeilum aftur og aftur með lagasetningu. Það er það vissulega, ég skil það mætavel, þetta er ekki skemmtileg staða fyrir neitt okkar. En þá vil ég bara segja hæstv. innanríkisráðherra og öllum öðrum sem vilja hlýða á það, að þessi staða mun verða algengari vegna þess að vinnuveitendur geta gert ráð fyrir lagasetningu, meira eða minna, þeir hafa vissulega það vopn í búri, þeir geta alltaf sagt: Nei, við ætlum ekki að semja. Og þá verða bara sett lög. Hefði Icelandair hugsanlega getað farið í gegnum þessar deilur án þess að hugsa nokkurn tíma með sér: Það verða bara sett lög, hvers vegna ættum við að semja, hvers vegna ættum við yfirleitt að ganga að borðinu?

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði áðan að það skipti ekki endilega máli að svona mörg verkfallsbönn væru sett á svona stuttum tíma heldur væru það aðstæðurnar sem skiptu máli. Ég skil sjónarmið hans en ég er ósammála því vegna þess að þær aðstæður sem við erum í núna og viðbrögð þingsins, sérstaklega með Herjólfslögunum, draga úr gildi verkfallsréttarins, hvort sem það er tilgangurinn eður ei. Ég er ekki að fullyrða að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að eyðileggja verkfallsréttinn en þannig eru áhrifin af þessum gjörðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hvort sem það er tilgangurinn eða ekki. Það eru afleiðingarnar. Það er ekki nóg að vilja vel á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti, við þurfum að gera okkur grein fyrir afleiðingum gjörða okkar.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði einnig áðan að þeir sem stóðu að verkfallsbanninu 2011 ættu að sjá sóma sinn í að styðja málið nú og vera samkvæmir sjálfum sér. Því svara ég þannig, virðulegi forseti, að þessi lög eru sett í skugga Herjólfslaganna. Það gerir þingmönnum eins og mér frekar erfitt fyrir að líta á þetta mál sem einstakt, eins og það sé hægt að meta þetta mál eitt og sér, einungis út frá þeim forsendum sem varða það eitt og sér. Þetta mál er ekki eitt og sér, þetta er þriðja málið í ár, virðulegi forseti, eftir að varað var við lagasetningu.

Tilfellið er að staðan sem við stöndum frammi fyrir núna má vel vera bein afleiðing Herjólfslaganna og það breytir eðli málsins. Það breytir hagsmununum sem eru að verki, það breytir eðli málsins og gerir það mun erfiðara en það annars væri.