154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er mörgum þessa dagana tíðrætt um að við stöndum okkur ekki nógu vel hérna á Alþingi og séum afkastalítil. Ég ætla að fá að vera hjartanlega ósammála því. Þar sem ég er formaður allsherjar- og menntamálanefndar langar mig að renna hér yfir hluta af þeim frumvörpum sem við höfum afgreitt út úr þeirri ágætu nefnd.

Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi þar sem ráðherra sem fer með málefni almannavarna var veitt skýr lagaheimild til að taka ákvörðun á grundvelli tillögu ríkislögreglustjóra og að höfðu samráði við stjórnvöld um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna. Við erum hér að tala um til að mynda uppbyggingu varnargarða sem hafa svo sannarlega reynst vel. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom með frumvarp um breytingar á háskólalögum varðandi örnám og prófgráður. Þá kom hún einnig með þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélaginu á Íslandi. Ályktunin fól í sér stefnu og aðgerðaáætlun á sviði háskóla- og vísindastarfs, nýsköpunar og hugverkaiðnaðar og í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Við höfum tekið fyrir breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna þar sem er lagt til að ábyrgðarmannakerfi bæði Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem sagt eldri lánasjóðnum, svo og Menntasjóðsins verði fellt niður að fullu. Mennta- og barnamálaráðherra kom með frumvarp þar sem við lögðum niður Menntamálastofnun en stofnuðum nýja stofnun er heitir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Það er stofnun sem hefur mikilvægt hlutverk til að styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf.

Þá höfum við fjallað um ýmis samræmingarfrumvörp og veitt nemendum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum námsstyrki. Við höfum breytt lögum um fjölmiðla til að verja betur börn og réttindi heyrnar- og sjónskertra. Við höfum afgreitt málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu. (Forseti hringir.) Ýmislegt má telja og ég var ekki einu sinni komin að dómsmálaráðherra. Þá verð ég að segja það að hér í dag munum við afgreiða frumvarp til laga um breytingar á útlendingalögum, mál sem við höfum farið mjög vel yfir í nefndinni og því verður ánægjulegt að sjá það verða að lögum síðar í dag. (Forseti hringir.) Enn eru inni í nefndinni nokkur mál sem við höfum gefið okkur mikinn tíma í. Þar má nefna þjóðlendur, lögreglulög og sanngirnisbætur og ég vona svo sannarlega að við náum að klára þau mál líka.

(Forseti (BÁ): Forseti verður að minna hv. þingmenn á að ræðutími í störfum þingsins er tvær mínútur en ekki tvær og hálf mínúta eins og hjá hv. þingmanni og verður að gera athugasemd við það.)