154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Hvernig tekur maður ákvarðanir? Er það út frá því hvernig vindurinn blæs þann daginn? Eða er það út frá bestu upplýsingum og gögnum hverju sinni? Ber ráðherra ekki ábyrgð á því að aflað sé gagna til að vita hvort það sem við erum að gera í okkar samfélagi sé besta aðferðin hverju sinni? Ég tel ekkert mikilvægara fyrir heilbrigðiskerfið og lýðheilsu þjóðarinnar en öflun gagna. Það er grundvallaratriði að við fylgjumst með heilbrigði þjóðarinnar og aukningu sjúkdóma og aukningu sjálfsvígshættu og viðbrögðum okkar við henni. Það er grundvallaratriði sem við erum ekki að fylgjast með. Skráningar eru lykilatriði, það er mjög mikilvægt að geta náð í gögn um heilsubrest Íslendinga. Því skil ég ekki, herra forseti, af hverju hæstv. heilbrigðisráðherra virðist hafa mjög takmarkaðar upplýsingar um sjúkdóma og geðsjúkdóma hjá þjóðinni, það virðist mest vera fylgst með krabbameini.

Forseti. Ég hef spurt ýmissa spurninga og beint ýmsum fyrirspurnum til heilbrigðisráðherra um sjúkdóma hjá þjóðinni. Nú síðast fékk ég svar við fyrirspurn minni um sjálfsofnæmissjúkdóma og skjaldkirtilssjúkdóma. Þá spyr ég einfaldlega um tíðni sjúkdóma, um breytingar á tíðni og ef breytingar hafa orðið af hverju þær stafi. Í svari hæstv. ráðherra segir að hann hafi ekki þessar upplýsingar og geti því ekki upplýst um stöðu þessara sjúkdóma á Íslandi. Ég hélt, herra forseti, að þetta ætti bara við um geðsjúkdóma og sjálfsvígshættu sem ekki er verið að fylgjast með eða hægt að fá gögn um frá heilbrigðisráðuneytinu. En svo virðist ekki vera.

Forseti. Ég tel alvarlegt að heilbrigðisráðherra sé ekki að fylgjast með þessu og geti þá ekki með nokkru móti brugðist við aukningu sjúkdóma hjá Íslendingum. Til þess að geta byggt upp öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi (Forseti hringir.) þurfum við að byrja á því að fá það á hreint hvað sé að gerast í samfélaginu okkar og hver staðan sé.