154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Mér finnst ég alltaf sjá sömu vinnubrögðin hjá þessari hæstv. ríkisstjórn; stórar og miklar yfirlýsingar um aðgerðir sem eiga að bæta kjör almennings en það fylgja sjaldnast einhverjar útfærslur á þessum aðgerðum með. Þessi vinnubrögð má sjá skýrt við þessi þinglok í ýmsum málaflokkum og mér er umhugað um orkumál í ljósi ræðu hv. þingmanns úr röðum Sjálfstæðisflokksins þar sem hún snerti á orkumálum og mikilvægi þeirra í störfum þessarar ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta. Ég vil minna á metnaðarfullar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum frá 2021 þar sem stefnt er að því að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040, sem er nota bene ekki í takt við umhverfis- og loftslagsmarkmið Evrópusambandsins sem við eigum það til að líta til. Hins vegar eru vinnubrögð stjórnarmeirihlutans varla í samræmi við orðræðu hans þegar kemur að orkumálum, hvorki uppi í pontu né í stefnuyfirlýsingum, við þessi þinglok þegar rétt rúmlega ár er í kosningar. Það er ekki að sjá neinar umfangsmiklar breytingar eða viðbætur í þessum málaflokki og yfirlýsingar um hraðara leyfisveitingarferli orkumannvirkja, endurskoðun rammaáætlunar, lög um vindorku og raforkuöryggi er bara það, yfirlýsingar. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að keyra á orkumálum í næstu kosningum en þar sem ekkert er að frétta af umbótum í málaflokknum þá sé ég fyrir mér hröð og óvönduð frumvörp sem þröngvað verður í gegn á næsta löggjafarþingi, 2024–2025, í þeim eina tilgangi að hafa eitthvað til að sýna fram á í næstu kosningum og allar líkur eru á því að umhverfis- og náttúruvernd, aðkoma og þátttaka almennings og vandaðir stjórnsýsluhættir mæti miklum afgangi í þeim vinnubrögðum.