154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið hér til lokaafgreiðslu og þingflokkur Miðflokksins mun að sjálfsögðu styðja það eins og margsinnis hefur verið lýst yfir. Það er auðvitað þannig að þó að þetta mál sé til bóta þá eru fleiri skref nauðsynleg og það er undirstrikað með því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur þegar flaggað því að frekari framlagningu mála megi vænta í haust. Það var svolítið svekkjandi að sjá tillögur Miðflokksins hér við 2. umræðu felldar með öllum atkvæðum þingflokka meiri hlutans þar sem reynt var að setja inn aftur þau atriði sem höfðu fallið út og voru til bóta hvað regluverkið varðar, atriði sem höfðu verið í málinu þegar það var lagt fram til kynningar í samráðsgátt en höfðu fallið út þegar mælt var fyrir málinu. En þetta er skref í rétta átt og eins og ég segi styður þingflokkur Miðflokksins heils hugar við málið og vonar að hæstv. dómsmálaráðherra haldi áfram þeim takti sem hann hefur lýst yfir núna með því (Forseti hringir.) að hér sé ekki nóg að gert og með yfirlýsingu um framlagningu frekari mála á haustþingi.