154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:42]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls undir þessari breytingartillögu. Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á þrjár kríteríur þegar kemur að breytingu á útlendingalögum; mannúð, skilvirkni og erlendar fyrirmyndir og þá helst norrænar. Þessar breytingar falla á öllum þessum prófum. Varðandi norrænar fyrirmyndir, og þetta er mikilvægt, þá eru bara fimm af 36 Evrópuríkjum sem viðhafa tímaskilyrði. Þetta er líka til þess fallið að auka á málafjölda, það hefur kærunefnd útlendingamála sjálf bent á. Þetta eru mjög matskennd undanþáguskilyrði sem lögð eru til hér þar sem hægt er að taka mál til efnismeðferðar þrátt fyrir að umsókn byggist á viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Þetta skapar mikla hættu á því að hér verði börn (Forseti hringir.) send fram fyrir röðina til að óska eftir alþjóðlegri vernd. (Forseti hringir.) Við leggjumst því ekki gegn því og styðjum það að þessi ákvæði sem varða fjölskyldusameiningu verði felld úr þessu frumvarpi.