136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hafa legið fyrir allan tímann frá því að ríkisstjórnin var mynduð breytingar og lýðræðisumbætur sem eru í verkáætlun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin lagði áherslu á það að þessi mál yrðu afgreidd áður en þingið færi heim og yrði frestað þannig að það á ekki að koma á óvart. Við höfum lagt okkur fram um að reyna að ná samstöðu um þær breytingar sem við höfum lagt áherslu á og um helgina var mjög komið til móts við ýmis þau sjónarmið sem sjálfstæðismenn hafa sett fram í þessu máli. Eftir því sem ég best veit hafa verið haldnir 11 fundir um þessar stjórnarskrárbreytingar. Það er ekki eins og mörg af þessum málum sem þarna koma fram séu ný mál heldur hefur verið fjallað um þau í langan tíma af stjórnmálaflokkunum, eins og auðlindir í þjóðareign og sú tillaga sem var lögð fram í upphafi hefur tekið verulegum breytingum til þess að koma til móts við sjónarmið sjálfstæðismanna, og reyndar hafa nokkrar aðrar breytingartillögur verið lagðar fram við þau fjögur efnisatriði sem eru í frumvarpinu.

Hv. þingmaður kallar eftir því að afgreiða þurfi hér mikilvæg mál sem snerta heimilin í landinu og það er alveg hárrétt hjá honum. En sum af þessum málum komast ekki að af því að sjálfstæðismenn þurfa að ræða hér langtímum saman um einstaka mál sem algjör samstaða er um, eins og var t.d. hér í gærkvöldi að það komust þrjú mál áfram á fimm eð sex klukkutímum. Hér var verið að ræða um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem enginn ágreiningur var um, hvorki við 2. umr. né 3. umr., og engin breytingartillaga var lögð fram. Samt gátu sjálfstæðismenn verið að ræða þetta mál í fjóra klukkutíma og komust þá ekki m.a. að ýmis mál sem voru á dagskránni (Gripið fram í.) og snerta heimilin í landinu. (Gripið fram í: Hvaða mál?) Það voru ýmis mál á þeirri dagskrá, ég held að það hafi verið 30 mál á þeirri dagskrá og það voru þrjú afgreidd á þeim sex til sjö (Forseti hringir.) klukkutímum sem sjálfstæðismenn voru að þrasa hér um mál sem algjört samkomulag er um, sem þýðir það að (Forseti hringir.) þeir eru að tefja afgreiðslu mála og tefja það að þingið geti farið heim.