136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:19]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hef áður vikið að því að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að koma fjármagni á hreyfingu. Það skiptir öllu máli en auðvitað er fjármagn ekki á hreyfingu nema það sé til staðar. Til þess að það verði til staðar þarf m.a. að örva atvinnulífið, og atvinnulífið þarf að fá örvun til að þetta spili allt hvað á móti öðru.

Þrátt fyrir að við eigum núna í erfiðleikum líkt og í kringum síðustu aldamót og kringum 1990 eru erfiðleikarnir meiri núna. Við erum að endurrýna og endurgera ýmislegt í stofnkerfinu. Hins vegar er stofngrunngerðin hér á landi mjög góð og þar af leiðandi held ég að við förum mun hraðar upp en mörg önnur þjóðríki sem hafa lent í svipuðu.

Hins vegar finn ég fyrir því í þessari umræðu að markmið allra hinna ólíku stjórnmálaflokka er að örva atvinnulífið og skapa enn frekara atvinnustig. Það er kostur. Það er enginn ágreiningur þar um. Mér líður stundum eins og í góðri sveitarstjórn þar sem allir í atvinnumálanefnd eru sammála um einhvers konar breytingu varðandi atvinnustig.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að síðan geta verið ólíkar áherslur gagnvart einstaka atvinnugreinum. Það sem skiptir þó meginmáli er að hvaða atvinnulíf sem er þegar til staðar hér á landi fái tækifæri til að eflast enn frekar í tengslum við bankakerfið sem hefur tekið breytingum. Síðan munu koma nýir sprotar, hvort sem sveitarfélög eða ríki koma að því, en atvinnulífið sem er til staðar — sem er víðast hvar blómlegt — verður að fá stuðning, hvort sem er frá ríki eða sveitarfélögum, (Forseti hringir.) og ekki hvað síst verður það að fá lausnir í bankakerfinu. Það skiptir meginmáli. (Forseti hringir.) Það leiðir í raun og veru til þess að við fáum enn frekari (Forseti hringir.) aukningu í atvinnustigi á næstu mánuðum.