136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá kemur þessi athyglisverði þáttur inn. Þá gæti vel verið að Alþingi mundi vilja leggja nýja stjórnlagaþingið af ef sú yrði niðurstaðan. Þá ætla ég að spyrja næstu spurningar. Í breytingartillögunum segir, með leyfi frú forseta:

„Um kjörgengi og kosningu á þingið og skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum þar sem m.a. verði settar reglur til að jafna sem mest hlutföll á milli kynjanna í hópi þingfulltrúa.“

Hvernig sér hv. þingmaður yfirleitt fyrir sér reglurnar um kjörgengi og kosningar til stjórnlagaþingsins? Hvernig verða kosningarnar? Verða það flokkar sem bjóða fram? Listar? Einstaklingar? Verða 10.000 einstaklingar þarna í boði? Munu allir fulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins geta verið þarna í framboði? (Gripið fram í.) Eða allir hjá Framsókn? Gætu þeir allir verið í framboði? Hvernig sjá menn þessar kosningar fyrir sér?

Ekki er orð um þetta í greinargerðinni. Ég fann það alla vega ekki. Strax eftir tíu vikur, þegar búið er að setja saman nýja stjórn, kemur þing saman aftur og þá á það að setja reglur um þetta í einum hvelli. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Hverjir verða í framboði? Hvernig ætla menn að setja þetta upp? Verða það flokkarnir sem bjóða fram? Verða það kvótakóngar sem bjóða fram? Eða hvernig sér hann þetta fyrir sér? (GAK: Ekki kvótakóngar.)