136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst pínu dapurlegt hvernig komið er fyrir Framsókn. (Gripið fram í: Nú?) Það er búið að valta yfir þau á skítugum skónum varðandi öll þau skilyrði meira og minna sem þau settu varðandi stuðning við minnihlutastjórnina og núna hanga þau á breytingunum varðandi stjórnarskrána eins og hundur á roði. Mér finnst svolítið sárt að sjá þennan annars ágæta flokk með mörgu góðu fólki innan borðs, að það skuli vera leikið svona grátt af hálfu vinstri flokkanna. (Gripið fram í.) Það er bara kaup kaups og þetta er bara pólitísk tækifærismennska sem greinilega snertir vel við (Gripið fram í.) þessum tveim strengjum sem liggja um taugakerfi þeirra framsóknarmanna.

Ég segi líka, af því að það var verið að vitna í fyrrum forustumann og merkan stjórnlagafræðing okkar sjálfstæðismanna, Bjarna Benediktsson eldri, að þá finnst mér líka sárt að sjá hvernig Framsóknarflokkur, flokkur Ólafs Jóhannessonar prófessors og eins helsta stjórnspekings landsins til margra ára, umgengst stjórnarskrána. (Gripið fram í: Góður punktur.)

Gott og vel, nokkrar spurningar eða tvær að minnsta kosti til hv. þingmanns. Ég held að við hljótum að vera sammála því að við viljum efla löggjafarþingið. Það hefur verið gert með ákveðnum hætti undir forustu Sturlu Böðvarssonar sem þingforseta á liðnum árum. En við hljótum að vera sammála því að við viljum efla löggjafarvaldið sem er Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir svari þessari spurningu játandi.

Við erum líka öll sammála því að á endanum eiga allar breytingar á stjórnarskránni að fara til þjóðarinnar. Við viljum breyta 79. gr. þannig að það verði fyrst þingið sem samþykki það og síðan fari ákvörðunin til þjóðarinnar. Það er enginn ósammála þessu. Við segjum: Við treystum þinginu. Við sjálfstæðismenn segjum: Við treystum þinginu því að þingið er líka fulltrúar þjóðarinnar og setjum síðan þær breytingar (Forseti hringir.) til þjóðarinnar. Þess vegna spyr ég hv. þm. (Gripið fram í.) Helgu Sigrúnu Harðardóttur: Treystir hún ekki (Forseti hringir.) þinginu til þess að útbúa (Forseti hringir.) stjórnarskrána með þeim hætti að hún verði burðugt (Forseti hringir.) plagg fyrir þjóðina til að (Forseti hringir.) samþykkja?