136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Áður en ég hef ræðu mína vildi ég spyrja hæstv. forseta hvort flutningsmenn frumvarpsins viti ekki af því að umræða stendur yfir um málið. Flutningsmenn eru m.a. hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fjármálaráðherra — (Gripið fram í: Málið er á forræði þingsins.) þau eru þingmenn.

Þetta mál er á forræði þingsins. Það eru fjórir þingmenn sem fluttu frumvarpið sem þingmenn: hæstv. forsætisráðherra, sem um leið er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og hv. þm. Birkir Jón Jónsson. (Gripið fram í.)

Ég var ekki að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að þessu en fyrst hann kallar þetta fram í þætti mér forvitnilegt að heyra hvaða afstöðu flutningsmenn frumvarpsins hafa til þeirra róttæku breytingartillagna sem verið er að gera með frumvarpinu, sérstaklega varðandi stjórnlagaþingið. Ég vildi gjarnan eiga nokkur orð við hv. þingmenn, flutningsmenn frumvarpsins, um það atriði. Ég spyr því hæstv. forseta: Vita flutningsmenn frumvarpsins af því að málið er nú til umræðu?

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram að hann veit ekki betur en allir hv. þingmenn hafi upplýsingar um það hvaða mál er á dagskrá þingsins. Forseti telur að það sé venja dag hvern að hv. þingmenn kanni hvernig dagskrá þingsins er háttað.)

Ég skil orð hæstv. forseta með þeim hætti að hann geri ráð fyrir því að flutningsmennirnir viti af því að málið sé til umræðu en þeir telji hins vegar ekki ástæðu til þess að vera viðstaddir þá umræðu. Það er athyglisvert. Ég ætla ekki að gera ágreining út af þessu eða krefjast þess að þingfundi verði frestað eða neitt svoleiðis. (Gripið fram í.) Ég bara vek athygli á því að flutningsmenn frumvarpsins, sem hafa lagt mikið kapp á að koma þessu máli í gegnum þingið, eru ekki viðstaddir umræðuna. Þeir hafa lítið verið viðstaddir umræðuna hér í dag og hafa greinilega ekki áhuga á því, að undanskildum hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, (Gripið fram í.) að taka þátt í þessari umræðu. (Gripið fram í: … og hættu þessu.)

Herra forseti. Er hægt að setja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á mælendaskrá þannig að hann geti haldið ræðu sína hér á eftir?

Það er leiðinlegt að hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir skuli vera farin úr salnum vegna þess að ég ætlaði að lesa upp kaflana sem hún sleppti úr umsögn Sigurðar Líndals um frumvarpið því að það voru mjög valdir kaflar sem hv. þingmaður las upp. Hún las upp það sem henni hentaði.

Hún sleppti t.d. gullmolum eins og þeim sem kemur frá prófessor emerítus Sigurði Líndal, með leyfi forseta:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi sér niður í deilur sem engu skili.“

Þetta segir prófessor Sigurður Líndal um stjórnlagaþingið. Hann segir líka að ef fara eigi í það að semja nýja stjórnarskrá telji hann rétt að það sé gert á sérstöku stjórnlagaþingi.

Ég verð að játa að mér finnst erfitt að átta mig á því nákvæmlega hvað prófessorinn vill í þessum efnum. Annars vegar talar hann um að það sé rétt að ný stjórnarskrá sé samin á stjórnlagaþingi — ef fara eigi út í að skrifa nýja stjórnarskrá eigi að gera það á stjórnlagaþingi — en hann hefur hins vegar þungar áhyggjur af því að slíkt þing verði umræðufundur og þrætusamkoma sem sökkvi sér niður í deilur sem engu skili. Mér finnst prófessorinn ekki sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum.

Prófessor Sigurður Líndal segir reyndar fleira um þetta. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gildi þess að endurskoða stjórnarskrá í heild er það helst að með því væri hvatt til úttektar á stjórnskipaninni og þeirri stjórnspeki sem að baki býr. Hitt tel ég þó vænlegra að endurskoða stjórnarskrá í áföngum eftir því sem tilefni gefst.“

Hann telur sem sagt að sú leið sem verið er að mæla með í sambandi við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sé ekkert endilega besta leiðin og eru það athyglisverð sjónarmið hvort sem við erum sammála þeim eða ekki.

Hæstv. forseti. Við erum þannig stödd í þessu máli að það hefur verið rekið áfram af miklu offorsi. Farið hefur verið fram með þessar breytingar í mikilli ósátt og án þess að viðhlítandi undirbúningur og viðhlítandi samráð hafi verið haft. Það hefur verið farið vandlega og ítarlega yfir það hér í ræðum fyrr í kvöld og ég ætla ekki að fara lengra út í það. Ég segi hins vegar: Í þessu máli hefur meiri hlutinn hér á Alþingi, ríkisstjórnarflokkarnir og fylgiflokkar þeirra, brotið þrjár meginreglur í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

Í fyrsta lagi hafa þeir brotið regluna um vandaðan undirbúning. Í öðru lagi hafa þeir brotið regluna um víðtækt samráð, bæði pólitískt samráð og samráð út í þjóðfélagið við hagsmunaaðila og fræðasamfélagið. Í þriðja lagi er verið að brjóta þriðju regluna sem er það að nægur tími sé gefinn til málsmeðferðar í þinginu og að vönduð málsmeðferð eigi sér þar stað.

Það þarf því engan að undra að við sjálfstæðismenn séum ósáttir við það hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Það þarf engum að koma á óvart að við vörum við þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Ég nefndi það í andsvari hér áðan að við höfum nýleg dæmi um stjórnarskrárbreytingar frá 1991, 1995 og 1999. Í öllum þessum tilvikum voru gerðar verulegar breytingar á stjórnarskránni í víðtækri sátt. Í öllum tilvikum var góður undirbúningur, langur aðdragandi.

Ég get nefnt sem dæmi undirbúninginn frá 1995 þar sem verið var að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar var forsaga málsins sú að vorið 1994 samþykkti stjórnarskrárnefnd drög að þingsályktunartillögu sem þá var kynnt fyrir þinginu og að lokum samþykkt á Alþingi 17. júní 1994 sem fól í sér ráðagerð um það að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar yrðu endurtekin. Það var talsverð vinna sem lá að baki þeirri þingsályktunartillögu og forskrift gefin um það hvernig standa skyldi að lögfestingu þessara ákvæða.

Síðla það sumar, 1994, fóru formenn allra þingflokka og settust yfir málið og fengu til liðs við sig stjórnskipunarfræðinga og sérfræðinga á sviði mannréttindamála. Þeir unnu með þessum sérfræðingum fram í desember og frumvarpið var lagt fram í desember rétt fyrir jólalok þingsins. Málið var síðan í umræðu og afgreiðslu í þinginu í tvo mánuði og var samþykkt sem stjórnarskrárbreyting í lok febrúar 1995. Þetta var meðferð þessa máls.

Það kom fram hjá Björgu Thorarensen prófessor, sem veitti ráðgjafarhópi ríkisstjórnarinnar eða forsætisráðherra forstöðu á fundi sérnefndar, að þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð, þessi undirbúningur hefði verið gagnrýndur fyrir það að málið hefði verið unnið helst til of hratt. Það var það sem Björg Thorarensen sagði um þessi vinnubrögð. En hver eru vinnubrögðin núna í samanburði við þetta? Þarna var hafist handa vorið 1994. Málið fer í þingsályktunartillögu. Það er farið að vinna hana frekar síðsumars. Þremur til fjórum mánuðum seinna er mál lagt fram á þingi og síðan eftir tvo mánuði er málið afgreitt í þingi og allt gerist þetta í góðri sátt sem er til fyrirmyndar. Breytingarnar 1991 og 1999 voru líka unnar í mikilli sátt og með vönduðum undirbúningi.

Við höfum dæmi frá Svíþjóð og Finnlandi, nýleg dæmi. Svíar, til að gera langa sögu stutta, settu á fót stjórnarskrárnefnd árið 2004, nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka. Sú nefnd skilaði vandaðri og ítarlegri skýrslu nú í desember, fjórum árum síðar, eftir mikið samráð við sérfræðinga og vandað og málefnalegt samráð milli flokka. Nú er verið að taka það mál til umræðu í þinginu og menn eiga von á því að þessar breytingar á sænsku stjórnarskránni taki gildi árið 2011. Það er verið að vinna málið vandlega. Það er ekki verið að rasa að neinu. Það er legið yfir verkefninu og vandað til verka.

Í Finnlandi voru svipuð vinnubrögð viðhöfð á síðasta áratug. Þar var sett á fót stjórnarskrárnefnd allra flokka árið 1995. Hún starfaði í fimm ár, ný finnsk stjórnarskrá tók gildi sumarið 2000, eftir fimm ára vinnu.

Það er engin tilviljun að þessar þjóðir velja svona aðferðir við að breyta stjórnarskránni. Það er engin tilviljun að um allan hinn vestræna heim vanda menn til verka í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Það er engin tilviljun að menn leggja mikið á sig til þess að ná samkomulagi og sátt um stjórnarskrárbreytingar.

Það hefur reyndar ekki verið sérstakur ágreiningur um það fram til þessa hér á landi að standa bæri þannig að verki í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Þau sjónarmið hafa ekki verið uppi hér að ekki þyrfti að vanda til verka, ekki þyrfti að vanda undirbúning eða leita sátta um stjórnarskrárbreytingar. Fram til þessa hefur það verið álitinn sjálfsagður hlutur.

Mér finnst ástæða til þess, hæstv. forseti, að vitna til nokkurra íslenskra stjórnlagafræðinga sem sumir hafa um leið verið stjórnmálamenn, stjórnmálaforingjar sem hafa fjallað um þessi mál. Ég ætla að stytta tilvitnanirnar en mér finnst þó rétt að þær kom fram við þessa umræðu.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra, sem reyndar hafði verið hæstaréttardómari og prófessor í stjórnskipunarrétti, sagði í grein í Andvara 1974, með leyfi forseta:

„Mikils þykir um vert að grundvallaratriðum í stjórnskipun landsins sé ekki haggað að ófyrirsynju, heldur hugað vel að breytingum áður en þær taka gildi.“

Þetta eru eðlileg varnaðarorð. Það þarf heldur ekki að fletta lengi í ritinu Deildum Alþingis eftir dr. Bjarna Benediktsson sem líka var forsætisráðherra og líka hafði verið prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands til þess að sjá tilvitnanir þar sem hann varar við, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur áðan, hvatvíslegum breytingum og svo „ráðlauslega“, eins og hann orðaði það, sé staðið að verki.

Á þeim tíma sem hann sagði þetta vísaði Bjarni til þess að deildarskipting Alþingis tryggði að frumvörp um stjórnskipunarlög fengju sex umræður í þinginu þrjár í hvorri deild og hann taldi að þarna væri verulegur hemill á ráðlauslegar breytingar og hvatvíslega málsmeðferð. Því fyrirkomulagi var breytt fyrir átján árum en rauði þráðurinn hjá Bjarna var sá að hann varaði við hvatvíslegum breytingum.

Sömu sjónarmið má sjá í umfjöllun Ólafs Jóhannessonar sem var forsætisráðherra og lengi prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir í riti sínu, Stjórnskipun Íslands, frá 1960, að vanda beri til verka við stjórnarskrá og gert sé ráð fyrir því að stjórnarskrárbreytingar séu gerðar með vandaðri hætti en ella eigi við um lagasetningu.

Gunnar Schram sem var alþingismaður og lengi prófessor í stjórnskipunarrétti segir í bók sinni, Stjórnskipunarrétti, frá 1997, með leyfi forseta:

„Hyggja þarf vel að fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til þess að gaumgæfa þær breytingar sem á henni eru gerðar.“

Þetta eru tilvitnanir í þessa stjórnskipunarfræðinga. Ég vísa aftur í það sem ég vitnaði til í ummælum Bjarna Benediktssonar í ræðu frá 1953 sem birtist í ritgerðasafninu Landi og lýðveldi. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði. Það er alþjóðarmál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir.“

Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðarmál að ræða fremur en flokksmál þá tel ég og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti að þjóðin áttaði sig til hlítar á um hvað væri að ræða og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um svo að hin nýja stjórnarskrá geti orðið hornsteinn hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð.“

Það má reyndar geta þess að undir þessi sjónarmið tók Hannibal Valdimarsson, sem var lengi alþingismaður og ráðherra, í grein sem hann skrifaði í Andvara 1974 í sambandi við tímahrakið sem menn eru stundum að skapa sér í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Hannibal segir, með leyfi forseta:

„Annars er það ekki aðalatriði hvenær endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið heldur hitt, hversu vel tekst til um sjálfa framkvæmd verksins.“

Öll framangreind ummæli þessara látnu stjórnmálamanna, stjórnmálaforingja og stjórnmálaskörunga og þar á meðal nokkurra helstu stjórnlagafræðinga Íslendinga eru í hrópandi andstöðu við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Hrópandi andstöðu. Það er eins og ríkisstjórnin og þeir sem fylgja henni að málum, eins og Framsóknarflokkurinn, hafi einsett sér að gera þessar stjórnarskrárbreytingar í fullkominni andstöðu við öll þau sjónarmið sem eru viðurkennd í sambandi við þær aðferðir sem tíðkast yfirleitt í vestrænum lýðræðisríkjum og í íslenskri sögu um hvernig breyta eigi stjórnarskrá. Það er eins og menn hafi vísvitandi verið að reyna að brjóta sem flestar grundvallarreglur og meginsjónarmið.

Hér hefur verið vitnað til fyrr í dag hvernig hinir og þessir umsagnaraðilar sem sendu erindi til sérnefndar um stjórnarskrármál bregðast við. Þeir gera athugasemdir við tímafresti. Flestir gera athugasemdir við tímafresti. Flestir gera athugasemdir við þann skamma tíma sem var til umræðu og eins og vísað hefur verið til treystu sumir sér ekki til að senda inn erindi vegna þess hve tíminn væri skammur. Aðrir fara nánar út í málið.

Ragnhildur Helgadóttir prófessor sagði að óheppilegt væri að víkja frá hefð um samstöðu. Það væri hætta á óæskilegri þróun og hún biður menn um að fara sér hægt við breytingar. (ÞBack: Ragnhildur byrjaði á að segja að hún fagnaði …) Samband íslenskra sveitarfélaga taldi að eðlilegt væri að bíða með breytingar fram yfir kosningar nema hugsanlega varðandi 2. gr. frumvarpsins. Lögmannafélagið leggst eindregið gegn frumvarpinu og segir að stjórnarskrárbreytingar þurfi að gera að vel athuguðu máli og í mikilli sátt. Breytingar þurfi frekari athugunar við.

Þetta eru m.a. aðilarnir, svo ekki sé talað um ótal hagsmunaaðila, sem hafa mörg orð um það hvað skorti á um tímann. Þeir benda á að mikið skorti á við málsmeðferð. Það sé skortur á samráði við fræðimenn, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila og þeir benda á að ætli menn á annað borð að setja á fót stjórnlagaþing sé eðlilegast að bíða með aðrar breytingar þangað til stjórnlagaþing tekur til starfa.

Allar þessar umsagnir liggja hér fyrir og ættu að vera stuðningsmönnum þessa frumvarps verðugt umhugsunarefni. Það er greinilegt að þeir sem mynda meiri hlutann í sérnefnd um stjórnarskrármál hafa ekki miklar áhyggjur af því hvað þessir umsagnaraðilar segja. En ég bind þó enn vonir við að einhverjir þingmenn í meirihlutaflokkunum hér á þingi taki mark á því fólki sem hér talar. Það er ekki eins og um sé að ræða einhverja pótintáta Sjálfstæðisflokksins, hagsmunaaðila sem séu að gæta óeðlilegra hagsmuna. Þetta er upp til hópa fólk sem ber umhyggju fyrir stjórnarskránni og varar við óheppilegum vinnubrögðum. Fjöldinn allur varar við óheppilegum vinnubrögðum.

Varðandi einstakar greinar má segja, af því hér hefur verið svolítið rætt um auðlindaákvæðið í 1. gr., að það eru ótal athugasemdir við þá grein og þær lúta alls ekki allar að því ákvæði sem var fellt út í breytingartillögum meiri hluta sérnefndarinnar. Ef umsagnirnar eru lesnar sést að fjölmargir aðilar gera athugasemdir við óljósa merkingu orða og hugtaka, t.d. varðandi þjóðareign. Samband sveitarfélaga bendir á að tilgangurinn sé óljós og ýmis túlkunaratriði sem ekki finnast svör við. Eðlilegra sé að bíða þar til farið verði út í heildarendurskoðun stjórnarskrár. Orkustofnun hvetur til þess, Orkustofnun sem ekki hefur neinna hagsmuna að gæta svo ég viti til, óskar eftir að hugtök verði skilgreind með skýrari hætti, t.d. varðandi náttúruauðlindir. Orkustofnun leggur til að þjóðareignarhugtakinu verði sleppt. Samorka sendir t.d. ítarlegar athugasemdir, vel rökstuddar um ófullnægjandi skilgreiningar hugtaka, hættu á réttaróvissu og bent er á að ekki hafi farið fram sú almenna umræða í samfélaginu sem eðlileg sé í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Landsvirkjun gagnrýnir óskýr hugtök og hugtakanotkun, skort á samráði. LÍÚ leggst gegn frumvarpinu og þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi fyrri afstöðu þeirra. Samtök atvinnulífsins benda á óljósa hugtakanotkun. Landssamband smábátaeigenda segir að merking 1. gr. sé óljós og ýmis hugtök séu bara orðagjálfur. Og svona má lengi telja.

Ég vísa bara til þeirra umsagna sem hér liggja frammi og eru margar hverjar mjög fróðlegar. Ég er ekki sammála þeim öllum, alls ekki. En ég hins vegar vek athygli á því að meiri hlutinn í sérnefnd um stjórnarskrármál telur í fæstum tilvikum ástæðu til þess að taka mark á þessum athugasemdum og virðir þær ekki viðlits og reynir ekki að svara þeim í mörgum tilvikum.

Í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar áðan kom fram að í hans huga væri þjóðareignarhugtakið skýrt. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson minni ég á að í sérnefnd um stjórnarskrármál sem starfaði vorið 2007 kom líka fram verulegur pólitískur ágreiningur milli fræðimanna um skilning á hugtakinu þjóðareign og hvað fælist í því ákvæði sem þá lá fyrir. Af gögnum málsins og umsögnum er alveg ljóst að sá ágreiningur er ekki leystur. Þó að skilningur hugtaksins þjóðareignar sé skýr hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þá er fjöldinn allur af aðilum í bæ, hagsmunaaðilum og sérfræðingum sem hafa annan skilning á hugtakinu en hann eða kvarta undan því að skýringarnar séu ekki nægar. Hugtakið sé of óljóst.

Í nefndaráliti meiri hlutans er bara fullyrt að þjóðareignarhugtakið sé skýrt og það er ekki rökstutt nánar. Sama er að segja um ábendingar um að eðlilegt sé að bíða með lögfestingu ákvæðisins þar til heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fer fram. Það er atriði sem margir benda á, að það eigi ekki að endurskoða einstök ákvæði ef til standi að fara í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á stjórnlagaþingi. Það er ekkert verið að ræða það í þessu nefndaráliti sem neinu nemi. Því sjónarmiði er bara svarað þannig að það sé búið að ræða svo lengi um svona ákvæði og nefndin telji einsýnt að ekki verði beðið lengur með setningu þess. Það er ekkert útskýrt eða rökstutt af hverju megi ekki bíða með setningu þessa ákvæðis.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan að umræðunni væri lokið. Þá spyr ég: Hver hefur ákveðið að umræðunni sé lokið? Hver hefur ákveðið það? Það er veigamikil spurning. Það er enn spurning um þetta ákvæði og fleiri ákvæði þarna.

Af hverju er svona brýnt að þessi ákvæði verði sett í stjórnarskrána núna? Því er ekki svarað, ekki gerð minnsta tilraun til þess að rökstyðja það hvers vegna það þurfi að gerast núna. Það eru ráðagerðir um að fara með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar inn á stjórnlagaþing. Eftir nýjustu tillögum meiri hlutans á að taka til starfa á næsta ári og ljúka störfum eftir tvö ár. Hvaða brýnu nauðsyn ber til að breyta hinum ákvæðunum í þann skamma tíma sem líður þangað til stjórnlagaþing skilar niðurstöðu sinni, hvaða brýnu nauðsyn ber til þess? Hvaða hagsmuni er verið að vernda á þessum tíma? Hvaða réttarstöðu á að breyta? Hvaða áhrifum ætla menn að ná fram á þeim stutta tíma sem líður þangað til stjórnlagaþing tekur til starfa?

Er það kannski bara það að þeir sem að þessu standa vilji gefa einhvers konar pólitískar yfirlýsingar, vilji senda út þau skilaboð að þeir vilji gera hitt og þetta, að þeir styðji hitt og þetta, að þeir séu að setja þessi stjórnarskrárákvæði fram fyrst og fremst sem pólitískar yfirlýsingar? Þá verð ég að minna á að stjórnarskrá er ekki landsfundarályktun stjórnmálaflokks, stjórnarskrá er ekki stefnuyfirlýsing eða einhver slík viljayfirlýsing, stjórnarskrá hefur lagagildi. Stjórnarskrá er grundvallarlög. Dómstólar þurfa að fara eftir stjórnarskrá. Þegar menn setja ákvæði í stjórnarskrá þurfa menn að vanda sig og menn þurfa t.d. að hugsa út í hvernig dómstólar muni meðhöndla viðkomandi ákvæði, hvernig þeir muni túlka þau. Ef menn eru bara að setja pólitískar yfirlýsingar inn í stjórnarskrá eru menn á miklum villigötum, þá lenda menn í miklum ógöngum. Þá taka menn þá áhættu að fylla stjórnarskrána með marklausum eða merkingarlitlum yfirlýsingum sem verða túlkaðar á alla enda og kanta og geta orðið uppspretta réttaróvissu, málaferla og dómsniðurstaðna sem enginn sér fyrir. Eins og hv. þm. Björn Bjarnason sagði fyrr í dag eru menn að skapa ríka hættu á því með þeirri aðferðafræði að dómstólum verði í rauninni falið það vald sem löggjafanum er almennt ætlað að hafa með hendi. (Gripið fram í.) Það er að mínu mati óheppileg þróun, það kann að vera að aðrir hafi aðra skoðun.

Varðandi aðra þætti frumvarpsins ætla ég ekki að hafa langt mál. Við höfum vikið að því, sjálfstæðismenn, fyrr í þessari umræðu og ég get ekki látið hjá líða að benda enn og aftur á þá hrópandi mótsögn sem felst í því að ætla annars vegar að lögfesta nýtt ákvæði um hvernig standa beri að stjórnarskrárbreytingum, þ.e. 79. gr. sem verður 81. gr., og hins vegar að koma á fót stjórnlagaþingi til að endurskoða stjórnarskrána í heild í náinni framtíð. Eins og bent hefur verið á, verði frumvarpið óbreytt að lögum, verður á sama tíma að setja tvær mismunandi leiðir til að afgreiða stjórnarskrárbreytingar sem eiga að vera í gildi á sama tíma. Þetta er að mínu mati hreinasta vitleysa, með leyfi forseta, hreinasta vitleysa. Menn ætla að hafa í gangi á sama tíma tvær mismunandi leiðir til þess að breyta stjórnarskrá, annars vegar stjórnlagaþing og hins vegar Alþingi með stjórnlagavald. Mér finnst í þessu felast alveg óskapleg mótsögn.

Mér finnst líka felast óskapleg mótsögn í því þegar menn segja að helsta ástæðan fyrir því að það þurfi að setja á fót stjórnlagaþing sé sú að alþingismenn megi ekki koma að stjórnarskrárbreytingum, það sé óheppilegt að alþingismenn komi að stjórnarskrárbreytingum. Með því er ætlast til þess að einmitt hinir sömu alþingismenn, þ.e. við sem nú sitjum á Alþingi, breytum stjórnarskránni. Í öðru orðinu treysta menn alþingismönnum ekki til þess að breyta stjórnarskránni, í hinu orðinu ætlast þeir til þess að alþingismenn samþykki stjórnarskrárbreytingar. Þetta er hrein rökleysa.

Eina leiðin til þess að átta sig á þessu er sú sem hv. þm. Pétur Blöndal vék að áðan, að hugsanlega hafa einhverjir af tillöguflytjendum í raun ekki neina trú á því að stjórnlagaþingið komist á koppinn eða að stjórnlagaþingið muni skila einhverju, hugsanlega er þetta þannig. Hugsanlega vilja einhverjir af höfundum þessara tillagna beinlínis flýta sér að gera breytingar sem eru þeim að skapi á stjórnarskránni vegna þess að þeir reikna ekki með að það komi neitt út úr stjórnlagaþinginu, vegna þess að þeir deila kannski skoðun prófessors Sigurðar Líndals, þ.e. að það verði bara þrætusamkoma, umræðufundur og þrætusamkoma sem ekki — (VS: Til stjórnlaga.) Já, en hann hefur ekki mikla trú á að það muni skila árangri, því miður.

Ég velti fyrir mér hvort framsóknarmenn sérstaklega, af því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er ein úr hópi stuðningsmanna frumvarpsins sem er hér í salnum, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er sú eina af þeim sem standa að þessu frumvarpi sem sýnir umræðunni áhuga á þessari stundu, þá finnst mér rétt að spyrja hana sem framsóknarmann hvort Framsóknarflokkurinn hlusti ekki á sinn eigin ráðgjafa í stjórnarskrármálum. Það hefur komið fram að Gísli Tryggvason er höfundur stjórnlagafrumvarpsins sem framsóknarmenn lögðu til fyrr í vetur, en núna virðist það ekki henta Framsóknarflokknum og Gísla, ekki þegar hann segir að hann hafi ríkar efasemdir um að það eigi að setja á stjórnlagaþing og gera hinar breytingarnar á stjórnarskránni á sama tíma. Þetta kom tvívegis fram hjá honum í sérnefnd um stjórnarskrármál. Gísli Tryggvason á sæti í ráðgjafarnefnd ríkisstjórnarinnar og kom tvívegis fyrir sérnefndina um stjórnarskrármál og það kom skýrt fram í máli hans, tvívegis, að hann hefði mjög miklar efasemdir um þá leið sem hér er farin. Ég velti fyrir mér: Af hverju hlusta framsóknarmennirnir ekki á sinn eigin ráðgjafa? Hentar það ekki pólitískum hagsmunum Framsóknarflokksins um þessar mundir að hlusta á þessi sjónarmið?

Ég vék aðeins að nefndaráliti meiri hlutans áðan. Þar eru ýmsar fullyrðingar sem ég verð að vekja athygli á vegna þess að þær eiginlega gera það að verkum að maður skilur enn síður þær hugmyndir og tillögur sem hér eru á borðinu. Ég vil nefna ákvæðið varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í nefndarálitinu segir um þjóðaratkvæðagreiðslur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar jafnframt að undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslu eru málefni sem varða einkamálefni og einkahagsmuni fólks eða minnihlutahópa.“

Reglan sem hér er orðuð í nefndaráliti er vissulega ágæt, en ég spyr: Á hún sér einhverja stoð í lagatextanum sjálfum, stjórnarskrártextanum sjálfum, í ákvæðinu? Ég kem ekki auga á það. Ég held að hafi verið ætlunin að setja reglu af þessu tagi í stjórnarskrárákvæðið hefði þurft að gera það með skýrum hætti, ekki bara með almennu orðalagi í nefndaráliti. Ummæli í nefndaráliti sem ekki eiga sér stoð í lagatexta hafa enga merkingu, skipta ekki máli. Það verður að vera stoð í lagatextanum til þess að nefndarálitið hafi eitthvert gildi.

Sama á við þegar síðar er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu, að Alþingi eigi að staðfesta spurningar sem séu tækar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það er sagt í nefndarálitinu að þar með sé tryggt að spurningar sem varða einstaklinga og einkamálefni þeirra fari ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Slík regla væri líka ágæt en hún kemur ekki fram í frumvarpstextanum sjálfum. Það er engin vörn varðandi einkamálefni og einkahagsmuni í stjórnarskrártextanum sjálfum. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér hvaða gildi svona ummæli hafi þegar þau eiga ekki stoð í frumvarpstextanum. Vilji menn setja svona reglur eiga menn bara að gera það með því að setja þær fram í frumvarpinu. Menn eiga þá bara að búa til svoleiðis reglu, það er ekkert því til fyrirstöðu og enginn í sjálfu sér á móti því. Þessi tvö dæmi sýna einungis að hugmyndin er ekki fullunnin, hugmyndin er ekki fullfrágengin. Jafnvel um atriði sem enginn ágreiningur þarf að vera um hafa vinnubrögðin verið með slíkum hætti að það er ekki búið að klára verkið. Þetta eru enn þá bara drög að stjórnarskrárfrumvarpi og málið alls ekkert tækt til afgreiðslu, því miður.

Það er síðan rétt að geta þess af því að ég vék þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðinu að pólitískt eru allir sammála um það markmið að stefna beri að því að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í landinu. Það er raunar hægt að gera það með lagabreytingum, með því að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ef þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera bindandi verður að vísu að fara með það inn í stjórnarskrá en það þarf hins vegar að gera með þeim hætti að vandað sé til verka. Það eru enn þá allt of margar spurningar, allt of mörg óljós atriði, allt of mörg atriði þar sem skortir útfærslu til þess að það sé hægt að líta á að þetta ákvæði sé fullunnið þó að það sé ekki ágreiningur um markmiðið. Sama á við um svo margt þarna. Það er ekkert endilega ágreiningur um markmiðin, vinnan er bara í miðju kafi, hún er ekki búin, það er ekki búið að klára vinnuna heldur er í einhverjum æsingi og taugaveiklun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna reynt að keyra þetta mál í gegn á síðustu dögum þingsins alveg án þess að hugað sé að því hvernig vanda beri til verka og standa beri að stjórnarskrárbreytingum af þessu tagi.

Það er fleira sem ég ætla að nefna hér en tími minni er senn á enda þannig að ég verð líklega að koma aftur síðar í umræðunni til þess að fara yfir fleiri þætti sem varða þetta. Ég vil bara geta þess í sambandi við stjórnlagaþingið eins og það er nú útfært í breytingartillögum meiri hlutans — ég vil nú ekki níðast neitt á þeim ágæta flokki Framsóknarflokknum — en ég hlýt að vekja athygli á því að nú stendur Framsóknarflokkurinn að þriðju tegundinni af stjórnlagaþingi, þriðju útgáfunni af stjórnlagaþingi á tveimur og hálfum mánuði. Á tveimur og hálfum mánuði hefur Framsóknarflokkurinn ruðst fram á völlinn, fullur af sannfæringarkrafti og heitur, með nýja útfærslu af stjórnlagaþingi og allar eru þær gerólíkar innbyrðis. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér ef málið verður lengi í umræðu í þinginu hvort við eigum von á fjórðu eða fimmtu útgáfunni frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Ég biðst velvirðingar, hæstv. forseti.

Við verðum að skoða þessar hugmyndir með stjórnlagaþingið þannig — og það var þess vegna sem ég í upphafi máls míns vakti athygli á því að hér vantaði flutningsmenn þessa frumvarps — að það stjórnlagaþing sem nú birtist í breytingartillögum meiri hlutans er allt annars eðlis en það stjórnlagaþing sem lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi. Að sumu leyti er það til bóta, t.d. er gert ráð fyrir að það sé miklu ódýrara en áður. (ÞKG: Hálfur milljarður.) Það er samt hálfur milljarður eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bendir á. En það vantar alveg skýringar á því, t.d. í nefndarálitið, hvers vegna og á hvaða forsendum þeir flokkar sem fyrir þremur vikum töldu að nauðsynlegt væri að stilla upp stjórnlagaþingi með þeim hætti sem birtist í frumvarpinu sem forsætisráðherra og fleiri fluttu, telja allt í einu að nú sé nóg að koma með einhverja allt aðra útgáfu. Þessi stefnubreyting er ekkert útskýrð.

Ég skil rökin með að spara. En ef flutningsmenn töldu nauðsynlegt að stjórnlagaþingið yrði með þeim hætti sem það birtist okkur í frumvarpinu fyrir þremur vikum telja þeir þá að það sé fullnægjandi í þeirri smækkuðu mynd sem lögð er til í breytingartillögum meiri hlutans? Þess vegna, hæstv. forseti, taldi ég að það væri mikið gagn að því ef flutningsmenn frumvarpsins væru viðstaddir þessa umræðu og ættu þátt í skoðanaskiptum við þingmenn um málið. Hugsanlega gefst tækifæri síðar í umræðunni til að eiga orðastað við þá um þessi atriði og fleiri.

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum ræðu minnar. Að endingu get ég þó ekki annað en vakið athygli á nokkrum þokukenndum ummælum og hugleiðingum varðandi stjórnlagaþingið sem birtast í lok nefndarálitsins um mikilvægar spurningar sem nauðsynlegt er að átta sig á áður en við samþykkjum nokkra tillögu um stjórnlagaþing. Það er eins og víðar að nefndarálitið er þannig úr garði gert að það verður frekar til þess að flækja málin, flækja skilning manns á málinu en að auka hann.

Í nefndarálitinu meiri hlutans segir eftirfarandi um persónukjör til stjórnlagaþingsins, en í upphaflegu frumvarpi var það útgangspunktur að það yrði persónukjör, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu“ — þ.e. persónukjöri — „en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Hvað á meiri hluti nefndarinnar við? Hvað þýðir þessi setning? Vill meiri hluti nefndarinnar persónukjör eða vill hann það ekki? Þeirri spurningu er ekki svarað í þessum texta. Er verið að gefa í skyn að fulltrúar kosnir persónukjöri séu ekki fulltrúar þjóðarinnar? Hvað er átt við? Ég skil það ekki.

Ég lýsi eftir því hvort einhver í salnum skilur hvað þessir hv. þingmenn eru að fara þegar þeir setja svona vitleysu fram, skilur einhver hvað þeir eru að fara? Þetta er mikilvægt þingskjal. Ef þetta verður að stjórnarskipunarlögum er þetta mikilvægt lögskýringargagn og það er til vansa ef þar eru óskiljanlegar fullyrðingar og setningar.

Í sambandi við útfærsluna á kjörinu til stjórnlagaþingsins velti ég líka fyrir mér því sem þar er sagt, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti.“

Ég skil ekkert í þessu. Ég veit ekkert hvernig menn sjá fyrir sér að ná þessum markmiðum. Þetta eru ósköp ágæt markmið en það er engin leið að átta sig á því hvernig á að útfæra þetta.

Svo segir:

„Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Þetta eru ágæt markmið en það er engin ráðagerð um hvernig eigi að útfæra þetta. Það eru skildar eftir alveg óskaplega margar spurningar. Það má segja að í breytingartillögunum sjálfum og raunar upphaflega frumvarpinu séu fjölmörg óljós og óútskýrð atriði en ákveðnir kaflar í nefndarálitinu verða enn þá frekar til þess að flækja málið, alla vega fyrir mér. Ég hef reynt að lesa þetta fram og til baka til að átta mig á því hvað meiri hluti nefndarinnar er að fara, hvað fólkið er að meina, en ég er engu nær. Ég væri þakklátur fyrir ef einhverjir hv. þingmenn, einhverjir af stuðningsmönnum málsins, flutningsmönnum eða nefndarmönnum gætu útskýrt fyrir mér þau tilteknu vafaatriði sem ég hef vikið hér að.

Hæstv. forseti. Ég lýk nú máli mínu en þar sem mjög mörg atriði varðandi þetta frumvarp eru óljós óska ég eftir því að eiga þess kost að komast aftur á mælendaskrá.