136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég efa það mjög að tækifæri sé til að hlusta á 26 ræður fram til þess að kallaður verði saman fundur í allsherjarnefnd klukkan hálfníu í fyrramálið.

Það sem er náttúrlega mjög athyglisvert við þessa umræðu í kvöld þar sem fulltrúar í stjórnarskrárnefnd hafa tjáð sig og margar spurningar hafa komið fram um efni frumvarpsins er að í afar fáum tilvikum hefur borið svo við að nefndarmenn í stjórnarskrárnefnd, sem bera ábyrgð á nefndarálitinu, svari þeim spurningum sem til þeirra er beint. Það hefur t.d. komið berlega í ljós, og öll gögn bera það með sér, að við erum núna að tala um þriðju útgáfuna af stjórnlagaþinginu á örskömmum tíma. Þetta mál er í þvílíkri deiglu að það breytist dag frá degi. Hv. þingmönnum sem eru nefndarmenn í stjórnarskrárnefndinni finnst bara alveg fullkomlega óþarft að ræða við þingmenn hér (Forseti hringir.) hverju þetta sætir, herra forseti.