138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og varðar stuðning við bændur á náttúruhamfarasvæðunum á Suðurlandi. Frumvarpið er flutt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og er full samstaða um það. Það er mælt í fyrsta lagi fyrir breytingum á lögum um Bjargráðasjóð og í öðru lagi um lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Frumvarp þetta var samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fyrir beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Við gerð þess var haft óformlegt samráð við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun. Það bar brátt að að koma þessu frumvarpi að þannig að samráðið var óformlegt. Það var einnig gott samráð og samstaða innan nefndarinnar um þetta mál frá upphafi þess.

Eins og kunnugt er hófst eldgos í Eyjafjallajökli rétt fyrir miðnætti 20. mars 2010 þegar kom upp kvika í Fimmvörðuhálsi. Samkvæmt mælingum virðist gosinu hafa lokið 12. apríl en hinn 14. apríl hófst gos að nýju í jöklinum, í toppgíg Eyjafjallajökuls. Mikil sprengivirkni og öskuframleiðsla hefur fylgt gosinu, sérstaklega í byrjun þess, svo hefur það farið vaxandi síðustu daga og vikur. Vegna mikils öskufalls og að nokkru leyti jökulhlaupa munu bændur sums staðar undir Eyjafjöllum hafa til athugunar að láta af búskap eða fækka bústofni, a.m.k. tímabundið. Á þeim svæðum þar sem öskufallið er og hefur verið mest eru efasemdir um að grasrækt og heyöflun verði komið við nú í sumar.

Það er rík samstaða um stuðning við bændur sem sæta erfiðleikum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Bjargráðasjóður sem starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009 hefur með höndum fjárhagsaðstoð í formi styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni. Árlegar tekjur sjóðsins takmarkast af 5. gr. laganna. Þar segir að árlegt framlag til hans skuli ráðast af fjárlögum en verði þó ekki hærra í hverjum fjárlögum en 80 millj. kr.

Nú liggur fyrir að tímabundin fjárþörf sjóðsins er mun meiri en nemur þessu hámarki. Það er því gerð tillaga um að fella þessa viðmiðun úr gildi en eftir sem áður mun ákvörðun um framlög til að bæta þetta tjón gegnum Bjargráðasjóð verða tekin í fjárlögum hvers árs.

Ég minni á það að Bjargráðasjóður hefur til þessa sinnt meira einstökum tjónum, einstökum býlum, riðuveiki og slíku, en hér er um að ræða tjón sem nær yfir stórt landsvæði og aðstæður eru allt aðrar en lögin um Bjargráðasjóð gera ráð fyrir.

Í annan stað er hér mælt fyrir breytingum á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það ræðst af sömu aðstæðum og ríkja á svæðinu. Hluti af tekjum kúabúa fellur til vegna framleiðslutengdra beingreiðslna. Verði þetta frumvarp að lögum munu mjólkurbændur á hamfarasvæðunum geta notið stuðnings af beingreiðslum þótt framleiðsla þeirra raskist eða liggi niðri um tíma. Með því má draga úr líkum á því að viðkomandi bændur selji beingreiðslurétt sinn frá lögbýlum sínum og bregði þannig búi varanlega.

Í þessu samhengi er mikilvægt að athuga að búvörulög heimila ekki að greiðslumark verði leigt út eða lánað á milli lögbýla.

Í annan stað fellur hluti af tekjum flestra sauðfjárbænda til vegna beingreiðslna og álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Beingreiðslur eru greiddar í samræmi við greiðslumark lögbýlis eins og það er á hverjum tíma. Framleiðendur verða að uppfylla skilyrði um ásetningshlutfall, þ.e. eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast greiðslurnar.

Í 3. mgr. 39. gr. búvörulaga, nr. 99/1993, er kveðið á um að á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland sé ráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Sú heimild hlýtur auðvitað að koma mjög til skoðunar á svæðum sem hafa orðið illa úti vegna öskufalls enda getur slíkt land verið viðkvæmt um tíma eða óhæft til beitar. Rétt er að geta þess að á afréttum undir Eyjafjöllum liggur mun þykkara öskulag en í byggð, svo þykkt öskulag að vandséð er að gróður nái upp úr því á vissum svæðum.

Því er ekki víst að sauðfjárbændur sem verða fyrir áhrifum af náttúruhamförum verði af beingreiðslum þótt þeir dragi úr framleiðslu sinni. Engu síður þykir rétt að mæla fyrir um heimild til handa ráðherra til að víkja frá ásetningsskyldu á svæðum sem orðið hafa illa úti vegna náttúruhamfara. Þess má geta að sambærileg heimild er í gildi varðandi bændur sem skorið hafa niður fé til útrýmingar sjúkdómum. Hætt er við því að framleiðendur á náttúruhamfarasvæðum verði fyrir skerðingu álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu samkvæmt 41. gr. laganna. Því er brugðist við með ákvæði til bráðabirgða. Þar er mælt fyrir um möguleika bænda til að njóta óbreyttra greiðslna úr gæðastýringu um tíma meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum.

Ég vek athygli á að þetta er bráðabirgðaákvæði til ársins 2012. Þingið verður e.t.v. að bregðast við og framlengja það ef aðstæður leiða til þess.

Ég vil líka taka það fram að það þarf eflaust að bregðast frekar við á svæðinu eftir því sem reynslan og framgangur gossins gefa tilefni til og ég þykist viss um að um það mun ríkja jafngóð samstaða innan þings sem utan og raunin er í þessu máli.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr.