138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Pétri Blöndal og það er rétt að hann gerði að umtalsefni ekki alls fyrir löngu hvort uppi væru neyðaráætlanir varðandi viðbrögð við því sem er að gerast austur undir Eyjafjöllum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur ekki gert slíka neyðaráætlun en hins vegar kom fram í umræðunni í þinginu á sínum tíma að sjávarútvegsráðuneytið væri í stöðugu og nánu samráði og sambandi við viðbragðsaðila, Bændasamtökin og fleiri, varðandi þau skref sem stíga þyrfti til þess að létta undir með bændum á þessu svæði.

Ég get alveg tekið undir að flutningar búfjár eru kannski seinir af stað en jafnvel þótt fyrir lægju neyðaráætlanir um flutning fjár, heyforða og þess háttar gerist slíkt auðvitað ekki nema í samráði við bændurna. Þeir verða sjálfir að fá að ráða því hvenær þeir telja nóg komið og hvenær þeir telja tímabært að forða sínu búfé undan öskufalli. Það metur það í raun og veru enginn betur en bóndinn á sinni jörð hvað hægt er að halda út lengi.

Hitt er annað mál að við deilum þessum áhyggjum, ég og hv. þm. Pétur Blöndal, og kannski er ekki seinna vænna en að setja upp slíkar neyðaráætlanir varðandi flutninga. Ég hefði samt fyrr viljað láta á það reyna að bændur skipulegðu þetta sjálfir og Bændasamtökin fyrir þeirra hönd í samráði við framkvæmdarvaldið eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, sem er eins og fram hefur komið allt af vilja gert.