139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það já, ef Íslendingar ynnu heimavinnu sína rétt væri hægt að taka upp evruna þremur árum eftir að Íslendingar gyldu jáyrði við því að ganga í Evrópusambandið. Áður en það gerist þurfum við að ganga í ERM II og taka þátt í því gengisstöðugleikasamstarfi. Það tekur um tólf mánuði þannig að eftir að við höfum samþykkt aðild í þjóðaratkvæði notum við tímann fram að því að búið er að staðfesta samninginn og aðild Íslands. Þá líða tvö ár og ef við vinnum heimavinnuna okkar getum við þar með tekið upp evruna.

Hv. þingmaður sagði að evran væri á fallanda fæti og það er ágætt að hann grípur til raka keynesista sem skrifa í The Economist um það. Hægt er að benda á marga aðra sem eru annarrar skoðunar, þar á meðal Evrópusambandið sjálft og þá sem stýra ríkjum þar. Staðreyndin, og kannski aðalatriðið, er að ESB hefur gripið til mjög róttækra aðgerða til að styrkja evruna og koma á stöðugleika á evrusvæðinu. Tíminn verður að skera úr um hvort það sé rétt en ég held fram að það sé að takast. Við sjáum það speglast í efnahagslegum staðreyndum sem eru að koma fram um efnahagslegan viðsnúning á evrusvæðinu. Við sáum það t.d. fyrir tveimur dögum. Ef hv. þingmaður hefði í Englandsför sinni lesið viðskiptasíðurnar í Daily Telegraph hefði hann varla komist hjá því að sjá að þar var greint frá því að viðsnúningurinn á síðasta ársfjórðungi miðað við ársfjórðunginn fyrir ári síðan hefði verið 2,5%. Spáð er hagvexti sem er töluvert meiri en t.d. á Íslandi. Ég veit að hv. þingmaður hefur svör við því líka.

Ég held því fram að viðreisn efnahagslífsins á evrusvæðinu og þær róttæku aðgerðir sem þar hefur verið gripið til sýni að ástæða sé til þess að vera bjartsýnn á framtíð evrunnar en tíminn verður að leiða það í ljós. (Forseti hringir.) Ég er ekki vaxinn sem efnahagslegur spámaður. (Forseti hringir.)

Því miður verð ég að nota síðara andsvar mitt til að svara spurningu hv. þingmanns um Kína.