139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að við eigum að vera hér með spádóma eins og við séum í getraunum heldur er ég bara að bíða eftir rökum, og ég vona að hæstv. ráðherra hlusti á það, því að við getum ekki nálgast málið á þann hátt að það sé í lagi vegna þess að einhver hafi þessa skoðun.

Í grófum dráttum og með ákveðinni einföldun er vandinn þessi: Þjóðverjar eru látnir borga reikninginn, að vísu líka Frakkar og Bretar, og búið er að setja upp þennan sjóð með 750 billjónum evra. Hann mun að vísu tæmast hratt ef Spánn fer, það liggur fyrir. (Utanrrh.: Spánn fer ekki.) Hæstv. ráðherra hefur ekki áhyggjur af því að Spánn fari, gott, ég vona að svo verði ekki.

Í grófum dráttum fá þessi ríki peninga gegn því að þau geri ákveðna hluti í efnahagsmálum sínum en enginn mekkanismi er til til að fylgja því eftir. Að vísu benda ríkin á að peningarnir fari fyrst og fremst í að borga í þýska og franska banka, alveg eins og Írar sem voru hér í Þjóðmenningarhúsinu og sögðu: Þetta voru ekki peningarnir okkar. Það var svipað og hér, það voru þýskir bankar eða erlendir bankar sem fjármögnuðu bóluna á Írlandi.

Munurinn á Íslandi og Írlandi er sá að við sögðum: Þið verðið að taka skellinn en Írar sögðu: Írskir skattgreiðendur eiga að borga. Ég vil nú fremur vera í stöðu Íslendinga en stöðu Íra. En stóra einstaka málið er að núna er rætt hvort auka eigi völd Evrópusambandsins, auka miðstjórnarvald í Evrópusambandið til að bjarga evrunni. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra og aðrir sem fylgjandi eru því að Ísland gangi í Evrópusambandið geta ekki hlaupið frá þessu og verða að útskýra fyrir Íslendingum af hverju enn meiri völd eigi að fara til Evrópusambandsins en eru þar núna.