139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eftir seinni ræðu hæstv. utanríkisráðherra sé ég ástæðu til að ítreka ánægju mína með að sjá aukna áherslu á málefni norðurslóða, enda hefur hæstv. ráðherra ítrekað að vilji hans standi til þess. Ég er jafnframt ánægður með eitt og annað sem hæstv. ráðherra nefndi varðandi Grænland og Jan Mayen. Ég er hins vegar ekki alveg sannfærður um að Íslendingar séu alfarið búnir að afsala sér kröfu til Jan Mayen og geti ekki með nokkru móti gert kröfu til áhrifa þar eða á Svalbarða, eins og eyjan heitir held ég á íslensku. Það nafn hefur svo reyndar verið fært yfir á Spitsbergen, sem eru eyjar sem Norðmenn ásælast líka.

Ég held að Sigurður Líndal lagaprófessor, ásamt fleiri mönnum, hafi tjáð sig um það í blaðagreinum í kringum 1980, þegar þessi umræða kom upp, að ýmislegt mælti með því að Íslendingar gætu gert kröfur til áhrifa á Jan Mayen. Ég held að það ætti að vera hluti af þessari nýju áherslu utanríkisráðuneytisins á áhrif Íslendinga á norðurslóðum.

Ég mundi líka gjarnan vilja heyra hæstv. ráðherra nefna aðeins olíumálin. Þau komu reyndar upp í umræðu nú áðan, en ég hefði áhuga á að heyra aðra hlið á þeim vangaveltum, þ.e. hvaða skref hæstv. ráðherra telur Íslendinga eiga að stíga til að hefja leit að olíu eða gera gangskör að því að einhverjir hefji leit að olíu á íslenska svæðinu. Við þurfum auðvitað að gæta vel að umhverfisáhrifum og þeim hættum sem slíku fylgja. En er ekki hæstv. ráðherra sammála um að það þurfi að fara að kanna hversu mikil olía eða gas (Forseti hringir.) kunni að leynast á þessum slóðum?