140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ákaflega ánægður með fundarstjórn forseta og kem hingað til að lýsa því, en ég er þó ósammála forseta um að hér séu nokkrar einustu líkur á samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut. Það hefur verið reynt og aftur reynt og gengur ekki. Stjórnarandstaðan, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og fylgismenn þeirra, neita að gera samkomulag. Í mínum huga er þetta orðið þannig að þeir ætla ekki að gera samkomulag nema á einhverjum þeim forsendum sem eru algerlega út í hött milli meiri hluta og minni hluta hér á þinginu.

Það var teiknimynd í Fréttablaðinu daginn fyrir 17. júní, af glöðu og ánægðu fólki úti á Austurvelli að fagna þjóðhátíðardegi sínum en Alþingishúsið stóð í tveimur svörtum skýjum með hauskúpum í. Það er sú mynd sem fólk á Íslandi hefur af þingstörfum þessa dagana. Er hún tilviljun? Ég held ekki. Ég held að þannig vilji stjórnarandstaðan hafa það. Það gengur vel í samfélaginu. Allar vísbendingar eru upp á við en stjórnarandstaðan vill að það sé órói, (Forseti hringir.) vandræði og vitleysisgangur á Alþingi og við stjórnvöld. Það er henni hagstætt og þess vegna vill hún það.