145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

mansal og undirboð á vinnumarkaði.

[10:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. félagsmálaráðherra um mál sem liggur mér og fleirum töluvert á hjarta. Hver hefði trúað því að óreyndu að á 100 ára afmælisári íslenskrar verkalýðshreyfingar væri þrælahald og mansal ásamt undirboðum á vinnumarkaði raunverulegt og vaxandi vandamál í íslensku samfélagi? Sú er engu að síður raunin. Þetta mansal á Íslandi á sér ýmsar birtingarmyndir, allt frá kynlífsánauð á vegum glæpasamtaka, skuldaþrælkun í gegnum málamyndahjónabönd og starfsmannaleigur og nauðungarvinnu ungmenna sem koma hingað til lands sem au pair heimilishjálp. Þetta hefur komið fram í skýrslum sérfræðinga og þetta hefur komið fram í einstökum fréttum sem birst hafa.

Vinnumansal hefur orðið meira áberandi á Íslandi síðustu missiri eins og nýlegar fréttir staðfesta, t.d. frá Vík í Mýrdal. Í nýlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um mansal í ríkjum heims, er meðal annars fullyrt að nauðungarhjónabönd tíðkist á Íslandi og að fólk sé þvingað í kynlífsánauð og því sé þrælað út við vinnu á nuddstofum, veitingastöðum, í byggingariðnaði, fiskvinnslu og sem au pair.

Ef þetta samfélagsmein nær að festa hér rætur til frambúðar getur það haft mjög óheillavænlegar breytingar í för með sér á samfélagi okkar og á hluti sem varða grundvallarmannréttindi. Þess vegna vil ég ræða við hæstv. félagsmálaráðherra. Hefur ráðuneyti hennar aðhafst eitthvað eða hyggst það aðhafast í þessu máli? Ef svo er, hvað er þá til ráða og til hvaða aðgerða hyggst ráðuneytið grípa? Nú hafa forustumenn í stjórnarflokkunum lagt fram tillögu um að leggja niður Félagsmálaskóla alþýðu (Forseti hringir.) sem er beinlínis með það á sinni námskrá að upplýsa fólk um einkenni vinnumansals á vinnumarkaði. Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar og hver er afstaða ráðuneytisins í málinu?