149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

tilkynning forseta.

[13:32]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Hv. alþingismenn. Áður en við göngum til dagskrár vil ég við þetta tækifæri lýsa sérstakri ánægju með þátt Alþingis í hátíðahöldunum þjóðhátíðardaginn og 75 ára afmæli lýðveldisins í gær. Í þingsalnum var haldinn þingfundur ungs fólks sem tókst í alla staði framúrskarandi vel. Ungmennin voru glæsileg og okkur til mikils sóma og að sjálfsögðu munum við í forystu þingsins efna þau heit að fjalla um ályktanir þær sem samþykktar voru á fundinum. Það má vera okkur mikið gleðiefni að við keflinu af okkur taki fólk sem svo mikil efni eru í eins og við sáum í gær. Reyndar leitaði sú hugsun ákaft á forseta hvort ekki væri ráð að fela þessu unga fólki að sjá um þinglokin að þessu sinni.

Síðdegis í gær var opið hús hér í Alþingi. Alls á fjórða þúsund gestir komu til að skoða þinghúsið. Á þessum þingvetri, þ.e. fullveldisdaginn 1. desember, þegar sömuleiðis var opið hús og nú á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, hafa samtals komið í Alþingishúsið um 6.000 gestir. Það var sérlega ánægjulegt að taka á móti gestunum og mæta því jákvæða viðhorfi sem þetta hús hefur í hugum landsmanna svo og verða vitni að þeirri prúðmennsku sem allir sýndu.

Ég þakka þeim alþingismönnum sem gátu komið í þinghúsið í gær, hlýtt á þing ungmennanna og síðan tekið á móti gestum og leiðbeint þeim um húsið. Alveg sérstaklega vil ég færa starfsfólki Alþingis þakkir fyrir undirbúninginn sem það hefur annast svo og gæslu og leiðbeiningarstörf þess í gær. Nokkuð á sjötta tug starfsmanna var hér við vinnu og hefði það fólk þó annars við aðrar aðstæður átt vel skilið að fá og eiga kærkominn hvíldardag.

Það er ástæða til að gleðjast fyrir hönd Alþingis yfir sínum hlut í þessum hátíðahöldum á 75 ára afmæli lýðveldisins.