149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

dánaraðstoð.

969. mál
[13:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég skil málið þannig, verði það samþykkt, að það sé undirbúningur að lagafrumvarpi um dánaraðstoð. Hugsanlega sé því aðeins tímaspursmál þar til umræður um að lögfesta rýmri rétt til að deyja verði teknar fyrir á Alþingi og það hugnast mér ekki vegna þess að álitamálin eru mjög flókin, eiga sér siðferðislegar, faglegar, lagalegar og trúarlegar hliðar.

Siðfræðingar hér á landi efast um að Alþingi ætti að samþykkja dánaraðstoð. Bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar geta verið settir í mjög erfiðar aðstæður verði dánaraðstoð heimiluð. Embætti landlæknis telur að það væri misráðið ef Íslendingar færðu umræðu um dánaraðstoð inn á Alþingi. Landlæknir segir umræðuna um þetta mál á hinum Norðurlöndunum fara fram á samnorrænum vettvangi, utan þings og án þrýstings.

Ég greiði ekki atkvæði.