149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um hið svokallaða ferska kjöt eða innflutning búvara. Eins og hefur komið fram mjög skýrt í umræðunni og allri umfjöllun er þetta mjög umdeilt mál. Það sem er þó svo áhugavert við þetta mál er að þarna fara, ótrúlegt en satt, að miklu leyti saman hagsmunir þeirra sem hafa áhyggjur af smitsjúkdómum og neytenda, enda er það hagur neytenda, eins og kemur t.d. mjög skýrt fram í áliti Neytendasamtakanna, að sú vara sem er í boði hér á landi sé heilnæm og að það sé tryggt. Hins vegar var ég með á málinu með fyrirvara vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að með þessu sé ekki verið að setja einhverja tollvernd eða annað slíkt af því að það eru líka hagsmunir neytenda að hafa aðgengi að fjölbreyttri og ódýrri vöru.