149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[19:56]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem er eðlilegt skref í þeirri þróun sem átt hefur sér stað síðustu tíu árin. Við eigum að fagna því að við höfum burði til þess að stíga þau skref. Seðlabankanum ber að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustum og öruggum fjármálamarkaði. Stofnanaleg uppbygging endurspeglar þessi þrjú meginmarkmið um leið og byggt er undir gagnsæi og valddreifingu innan bankans og m.a. eru breytingartillögur meiri hlutans í þá átt að auka valddreifinguna og auka gagnsæið enn frekar en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Hér liggja líka fyrir breytingartillögur minni hlutans sem ég lýsi ánægju minni með og munum við sjálfsagt fjalla um þær við 3. umr., ekki síst tillögu um að reglulega fari fram úttekt á starfsemi Seðlabankans (Forseti hringir.) á fimm ára fresti. Ég held að það verði gríðarlega mikilvægt, jafn mikilvægt og það er fyrir okkur þingmenn að fylgjast með störfum og stefnu Seðlabankans á komandi árum.