149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[19:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er vel undirbúið og byggir á ráðgjöf innlendra og erlendra sérfræðinga þar sem verið er að sameina í eina stofnun tvær stofnanir á sviði peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Við skipan seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra gilda sömu reglur og nú gilda, þ.e. um hæfisnefndir sem skipaðar eru og háskólamenntun á því sviði. Þetta eru sömu ákvæði og eru í gildandi lögum um Seðlabankann sem voru samþykkt á Alþingi 2009 í frumvarpi fluttu af Jóhönnu Sigurðardóttur, ef ég man rétt. Mér finnst með hreinum ólíkindum að hlusta á hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma aftur og aftur upp í þennan ræðustól og halda fram þeim rakalausa málflutningi að verið sé að ýta undir pólitískar skipanir. Ég vísa því á bug. Þetta er rakalaus málflutningur og hv. þingmönnum Samfylkingarinnar svo sannarlega ekki sæmandi.