149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég heyri að málflutningur Samfylkingarinnar er viðkvæmur stjórnarmeirihlutanum. Ég vísa þeirri gagnrýni sem fram hefur verið sett af hæstv. forsætisráðherra og fleiri hv. stjórnarþingmönnum til föðurhúsanna. Ég hef áhyggjur af því að með frumvarpinu sé verið að veikja þá mikilvægu stofnun sem Seðlabanki Íslands er. Við í minni hlutanum höfum lagt fram breytingartillögu til að bæta málið og setja í það öryggisventil.

Það er ekki bara Samfylkingin sem hefur áhyggjur af því að þegar Seðlabankinn verður orðinn svo valdamikill og með slíkt umfang undir sé hætta á pólitískum afskiptum. Bæði innlendir og erlendir sérfræðingar hafa haft uppi þau varnaðarorð og við ættum auðvitað að hlusta á þau og bæta málið þannig að við lendum ekki í þessum vanda. Það er það sem við í Samfylkingunni viljum að þingheimur íhugi fyrir 3. umr. þessa máls.