149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég er stundum hugsi yfir því sem við leyfum okkur að segja í stjórnmálum í dag, hvort sem er hér inni eða ekki. Það að saka hæstv. forsætisráðherra, sem verið er að gera, um að leggja fram frumvarp til að undirbúa jarðveginn til að hægt sé að skipta pólitískt einhverju hnossi sem séu seðlabankastjórar — ég hef af og til hugsað um það, þá sjaldan ég hugsa í þessum þingsal, þegar ég hlusta á þennan málflutning, hvort við séum kannski aðeins búin að gleyma okkur í pólitíska atinu, hvort við hugsum alltaf til enda það sem við segjum, hvort í dægurkarpinu skipti meira máli hvað við segjum hverju sinni en hvaða afleiðingar það hefur eða hvað við erum í raun og veru að gefa í skyn.