149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:04]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér þykir miður að umræðan þróast með þeim hætti sem hún hefur gert hér þegar við greiðum atkvæði. Það er auðvitað þannig, og það vita hv. þingmenn, að það verður staðið og hefur verið staðið faglega að ráðningu seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra og það verður gert samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Að gera því skóna að einhver annarleg sjónarmið liggi að baki er eingöngu tilraun til að grafa undan þeim trúverðugleika sem við öll hér inni verðum að sameinast um að ríki gagnvart Seðlabanka Íslands. Það er fullkomlega óábyrgt að tala með þeim hætti sem hér er gert, að gefa í skyn að verið sé að búa til einhvern farveg fyrir pólitískar ráðningar þegar allir hér inni vita að það er rangt.

Það er rangt og það er verið að gera lítið úr væntanlegum seðlabankastjóra sem tekur við nýju starfi í ágúst. Það er verið að gera lítið úr þeim sem taka við stöðu varaseðlabankastjóra og (Forseti hringir.) verst er að þetta er tilraun til að grafa undan trúverðugleika Seðlabanka Íslands sem ég hélt að við værum öll sammála um að við ætluðum að standa vörð um. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)