150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var aldeilis áhugaverð hugmynd, að kjósa sérstaka samgöngustjóra fyrir sveitarfélög, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, því að það erum við að ræða hér, og yrði þá væntanlega annars staðar líka. Ég ímynda mér hins vegar að flestir telji betra að viðhalda því lýðræðislega fyrirkomulagi sem við höfum byggt upp á Vesturlöndum á mjög löngum tíma og kjósa þingmenn eða sveitarstjórnarfulltrúa (Gripið fram í.) til að sinna ólíkum málum. Ég er því ekki að mælast til þess að það verði kosnir fulltrúar fyrir hvert og eitt málasvið, kosnir félagsmálastjórar, kosnir utanríkismálafulltrúar o.s.frv. En hugmyndin er áhugaverð og alveg umræðu virði. Ég held að það væri alveg þess virði fyrir hv. þingmann að kasta þessu fram á Pírataspjallinu og sjá hvaða umræða skapast þar því þetta er þó skárri kostur en það sem við horfum upp á núna, sem er eftirgjöf lýðræðislegs valds til ókjörinna stofnana og alls konar apparata. Það þýðir að þegar kjósendur mæta í kjörklefann þá hafa þeir ár frá ári, kosningar eftir kosningar, minna og minna um það að segja hvernig samfélaginu þeirra er stjórnað. Og það er ekki lýðræðislegt, herra forseti.

Ég fagna því að hv. þingmaður skuli velta hér upp áhugaverðum hugmyndum en ég ætla alla vega í bili að leyfa mér að tala áfram fyrir hefðbundnu vestrænu lýðræði. Ég er eins og hv. þingmaður vonandi veit auðvitað opinn fyrir því að auka beint vald kjósenda og við höfum rætt það alloft, (Forseti hringir.) en það ætti að vera innan ramma þess þjóðskipulags sem við búum við.