131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:04]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er nú stokkinn úr salnum en ég vil vekja athygli á því að hann ritar undir nefndarálitið með okkur. Ég vil bara koma því að að það er ekki verið að eyðileggja samstöðu bænda eða eyðileggja eitthvað fyrir kynbótunum. Það hafa verið innheimtar 80 millj. kr. á ári með þessu 1,7% gjaldi en í búvörusamningunum núna eiga 100 milljónir að fara í kynbóta- og þróunarstarf. Þetta er það sem bændurnir sjálfir hafa kallað eftir. Það má geta þess að t.d. í Vestur-Skaftafellssýslu sér dýralæknirinn um sæðingarnar þar í samstarfi og samvinnu við Búnaðarsamband Suðurlands. Þetta er því áfram og verður áfram í framkvæmd á ábyrgð bænda. Það komu engar neikvæðar umsagnir til okkar varðandi málið. Ég tel að þetta sé mjög gott mál og það er ekki verið að eyðileggja eitt eða neitt með því.