131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[14:56]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að þegar ég sá þetta frumvarp fyrst rak mig eiginlega í rogastans því mér fannst ákaflega einkennilegt að sjá á blaði að það væri leyft samkvæmt landslögum að flytja út gamlar hryssur sem hafa haft mikið fyrir lífinu, borið mörgum folöldum og gengið með þau og allt það á meðan ekki er leyft að flytja út geldinga 15 ára og eldri sem ekki hafa annað þurft fyrir lífinu að hafa en bera eigendur sína í einstaka reiðtúr. Þetta leit eiginlega út eins og hið argasta kynbundna misrétti við fyrstu sýn.

Svo þegar maður fer að velta því fyrir sér hvað geti eiginlega legið að baki svona löguðu þá virðist það blasa við að það sem ræður því að hryssur og graðhesta 15 ára og eldri má flytja er sennilega peningahlið málanna því að svoleiðis hesta er væntanlega hægt að selja sæmilegu verði ef um góða gripi er að ræða. En geldingar eru aftur á móti aðeins nýtanlegir eigandanum til ánægju og svo í mat ef einhver vill éta þá í lokin, sem ég held nú að sé reyndar fátítt með uppáhaldshestana.

En það sem veldur því væntanlega að verið er að fara fram á að lögin verði færð í það horf sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að það megi líka flytja út 15 ára geldinga og eldri, er að Íslendingar eru talsvert að flytjast á milli landa og hestamenn vilja gjarnan taka með sér hestana sína þegar þeir fara. Það sem ræður þá þessari ósk sem birtist hér í rauninni í lögunum er tilfinningalegs eðlis, þ.e. að eigendurnir vilja ekki skilja eftir besta vininn heima á Íslandi þegar þeir flytja búferlum og ég get nú haft samúð með því sjónarmiði.

Hins vegar kemur fram í umsögnum dýralækna sem veittu okkur umsagnir sínar — því miður bárust þessar umsagnir frekar seint — að þetta er ekkert alveg einfalt mál vegna þess að flutningar og aðsetursskipti hafa mikil áhrif á hesta. Það kemur fram í einni umsögninni m.a. að eldri hestar þola oft og tíðum mjög illa aðsetursskipti, meira að segja á Íslandi, og til eru mjög margar sögur að fornu og nýju um hesta sem fara landshluta á milli, strjúka til fyrri heimkynna. Slík er tryggðin við hin gömul heimkynni, enda vitum við að hesturinn er félagsvera og myndar félagsleg tengsl við hópinn sem hann er í ekki síður en við eiganda sinn.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Leiða mál líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum. Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum og þó svo að ekki hafi verið sýnt fram á að aldur við útflutning sé þar beinn orsakavaldur er það almennt svo að aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minnkar með aldrinum.“

Hún segir jafnframt, frú forseti:

„Það hafa komið meldingar frá Bandaríkjunum um óeðlilegan blóðstatus í hrossum sem við óttumst að séu stressáhrif bæði vegna flutnings og umhverfisbreytinga. Það hefur því miður ekki gefist tækifæri til að rannsaka þetta nákvæmlega en á meðan tel ég rétt að hrossin njóti vafans og að þau aldurstakmörk sem eru í lögum verði virt.

Það má vel hugsa sér að undanþágan fyrir kynbótahross verði felld niður.“

Svoleiðis er nú það, frú forseti. Þessi nefndur dýralæknir sem er sérfræðingur í hrossasjúkdómum og málefnum hrossa leggst gegn því að þetta verði gert.

Björn Steinbjörnsson dýralæknir segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Ónæmiskerfi eldri hrossa er ekki jafn vel í stakk búið til að aðlaga líkama þeirra að breyttum umhverfisaðstæðum og yngri hrossa. Hætta er á að eldri hross veikist oftar og verr en yngri hross eftir komu á nýjar slóðir. Atferlisfræðilegar breytingar á högum hrossanna verða einnig miklar. Við þekkjum hérlendis hvað eldri hross taka það nærri sér að flytjast úr umhverfi þar sem þau hafa dvalið langdvölum.“

Katrín Andrésdóttir segir eftirfarandi, sem mér finnst einmitt mjög athyglisverð ábending, frú forseti:

„Ýmsar vísbendingar eru hins vegar til þess að flutningar á erlenda grund valdi talsverðu álagi á öll hross. T.d. berast fregnir frá Bandaríkjunum um að blóðstatus nýinnfluttra íslenskra hrossa bendi til álags.

Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum, enda minnkar aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins með aldrinum.

Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum.“

Katrín segir að lokum í bréfi sínu:

„Nauðsynlegt er að rannsaka vísindalega hvernig hrossum reiðir af við komu á erlenda grund. Sýni rannsóknir að aldur skipti þar litlu eða engu máli, er tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar.“ Þ.e. að leyfa líka útflutning á geldingum.

Í umsögnum annarra dýralækna við lagafrumvarpið eru ekki gerðar athugasemdir enda eru gerðar kröfur um heilbrigðisskoðun á hrossunum áður en þau eru flutt út. En ábendingar þeirra dýralækna sem ég hef vitnað í beinast að aðstæðum hrossanna og ástandi þeirra í nýjum heimkynnum. Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni, ekki síður en ástand þeirra hér á landi áður en til útflutnings kemur, ef við erum á annað borða að velta fyrir okkur dýraverndunarsjónarmiðum, og það er jú það sem við erum að veifa hér með því að láta dýralækna skoða hrossin og veita þeim vottorð áður en þau fara út.

Ég sagði fyrr í ræðu minni og ég tel að það hafi komið fram á fundum nefndarinnar að ástæðan fyrir því að verið er að fara fram á þessa breytingu sé sú að eigendur vilja fá að hafa með sér dýrin sín þegar þeir flytja út, því að það eru ekki sjáanlegir neinir fjárhagslegir hagsmunir í því að flytja út geldinga sem aftur á móti er þegar verið er að flytja út hryssur og graðhesta. Það hlýtur því eiginlega að vera ástæðan fyrir því að þessi ósk er komin fram og birtist hér í lagafrumvarpi. Ég hef ákveðna samúð með þessum tilfinningatengslum manns og hests og tel að það geti vegið upp á móti álaginu sem hesturinn verður fyrir við það að flytjast á milli landa og í nýtt umhverfi að hann væntanlega flytur með eiganda sínum. Ég stend því að þessu nefndaráliti sem hér birtist en ég geri það jafnframt eiginlega skilyrt þannig að teknar verði upp rannsóknir á afdrifum og líðan íslenskra hrossa erlendis eftir að til nýrra heimahaga er komið. Ég hef þá trú að slíkar rannsóknir séu í farvatninu og að einhverju leyti byrjaðar, því að eins og fram hefur komið hjá ræðumanni fyrr skiptir það máli, ekki bara fyrir dýrið, sem þó vissulega er mikilvægt að dýrinu líði vel eftir að það er komið út, heldur skiptir það líka máli fyrir markaðsmál íslenska hestsins að dýrunum líði sæmilega, bæði líkamlega og andlega. Við vitum t.d. að það hefur skaðað markaðsmál íslenska hestsins hversu illa haldinn hann er oft af sumarexemi eftir að hann er kominn á erlenda grund og við vitum að eldri hross eru verr í stakk búin en yngri hross til að takast á við það, þau hafa minni varnir gegn sjúkdómum, þar á meðal sumarexemi. Þetta eru allt saman veigamikil rök í málinu. Hins vegar kippa eigendur sér sjálfsagt ekki eins mikið upp við það þó að hrossin þeirra, uppáhaldsgripirnir, fái exem og nýir eigendur sem hafa séð þá í sínu fínasta formi heima á Íslandi.

Ég legg traust mitt á að gengið verði í að rannsaka afdrif íslenskra hesta með tilliti til aldurs á erlendri grund, þ.e. hvort í rauninni sé verjandi að flytja út 15 ára hross og eldri. Þrátt fyrir að þau geti verið við ágæta heilsu heima á Íslandi er ekki þar með sagt að heilsufarið verði jafngott eftir að komið er á erlenda grund í allt aðrar aðstæður, meiri hita oft og tíðum, allt aðra fánu, allt aðra flóru og svoleiðis getum við talið upp.

En ég sem sagt stend að þessu nefndaráliti ásamt öðrum nefndarmönnum í landbúnaðarnefnd.