136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

bætur til Breiðavíkurdrengjanna.

[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er mjög brýnt að fara að fá lyktir í þetta mál og ganga frá þeim bótum sem eru ásættanlegar í þessu máli. Ég tek undir það að þetta er svartur blettur á þjóðinni og við þurfum að fá lyktir í það mál. Við höfum átt fund með forsvarsmönnum Breiðavíkursamtakanna í forsætisráðuneytinu til þess að ræða ásættanlega lausn en eins og hv. þingmenn þekkja voru þeir óánægðir með þá niðurstöðu sem kom úr nefnd sem fjallaði um þetta mál.

Við áttum ágætan fund með þeim og ræddum ýmsa möguleika á lyktum í þessu máli. Það er kannski hálfur mánuður eða þrjár vikur síðan við ræddum við þá og þá settum við fram ákveðnar hugmyndir til þeirra sem við höfum ekki enn fengið svar við en ég er að vonast til þess að við getum lokið þessu með ásættanlegri niðurstöðu sem allra fyrst. Það stendur ekki á okkur í þessu máli að ræða við forsvarsmennina og reyna að fá ásættanlega niðurstöðu. Boltinn er núna hjá þeim og ég vonast til þess að við heyrum í þeim sem fyrst og getum þá lokið þessu máli. Ég held að það sé hægt að ljúka þessu með öðrum hætti en frá var gengið í nefndinni og það er verið að skoða önnur heimili líka. Við þurfum að skoða það að niðurstaðan sem þeir fá núna sé þá a.m.k. ekki lakari en gæti komið að því er varðar niðurstöðu hvað varðar önnur heimili.