136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil ekki þessa tregðu að fresta ekki fundi núna og kalla saman fund með þingflokksformönnum klukkan hálfeitt. Eins og dagskrá liggur fyrir er gert ráð fyrir að matarhlé sé klukkan 13. Það er alveg ljóst að það er ófært fyrir framsögumann nefndarálits að gera grein fyrir nefndaráliti á hálftíma.

Er það sá bragur sem minnihlutaríkisstjórnin með atbeina framsóknarmanna vill hafa á umræðu um stjórnarskrána? Eða hversu langt vill þessi meiri hluti ganga í því að láta stjórnarskrána gjalda fyrir hefndarhug í garð sjálfstæðismanna?

Það er undarlegt að sú mikla reiði sem virðist búa hér í mönnum gagnvart sjálfstæðismönnum þurfi endilega að bitna á stjórnarskrá lýðveldisins. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, herra forseti? Hvernig stendur á því að forseti getur ekki orðið við einfaldri bón um að kalla saman formenn þingflokka, halda stuttan fund og átta sig á því hvernig best sé að koma dagskrá hér fyrir í dag?