136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:29]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna orða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sem sakar menn um það hér í þingsal að virða ekki stjórnarskrána eða umgangast hana ekki á þann hátt sem rétt sé að gera. Það er alveg lágmark, virðulegi forseti, að viðkomandi færi rök fyrir máli sínu eða biðjist afsökunar. Málflutningur af þessu tagi á ekki að líðast hér í þinginu og er full ástæða til að setja ofan í við þingmenn sem tala á þennan hátt. (Gripið fram í.)

Hitt vil ég segja við hv. þm. Ólöfu Nordal að þær stjórnarskrárbreytingar sem hér er verið að leggja upp með hafa í þeim skilningi ekkert með einhvern hug til sjálfstæðismanna að gera og hafa aldrei haft. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, eru menn ekki eitthvað að ofmeta sjálfa sig, eru menn ekki fullsjálfhverfir í umræðunni? Sjálfstæðismenn hafa nákvæmlega ekkert með það að gera að auðlindir verði í almannaeign. Sjálfstæðismenn hafa ekkert með það klassíska viðhorf jafnaðarmanna að gera (Forseti hringir.) að almenningur í þessu landi geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslur. (Forseti hringir.) Það hefur verið klassískt baráttumál í áratugi. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þetta hefur nákvæmlega ekkert (Forseti hringir.) með Sjálfstæðisflokkinn að gera nema hvað hann hefur oft þvælst fyrir góðum málum.