136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:18]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér hefur mikið gengið á — kröftug mótmæli af hálfu stjórnarandstæðinga hér á þingi fyrr í dag vegna dagskrár fundarins og nú fyrr í vikunni vegna nauðsynlegra breytinga á gjaldeyrismálum. Það mál var sett í hálfgerða gíslingu vegna þess frumvarps sem nú er á dagskrá og fyrirsjáanleg er löng og mikil umræða um frumvarpið. Hv. þm. Björn Bjarnason flutti hér mikla og eftir atvikum sköruglega ræðu og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri hápunktur niðurlægingar Alþingis. Gott ef ekki fyrr og síðar.

Ég vil í því sambandi nota tækifærið og vísa því á bug að við í meiri hluta, sem styðjum ríkisstjórnina, séum að efna til einhverrar búsáhaldabyltingar hér fyrir utan til þess að trufla störf Alþingis. Ég vísa þeim ásökunum algerlega á bug og tel raunar þann málflutning vera harla ankannalegan í sjálfu sér vegna þess að hér er um að ræða breytingar sem snúa að stjórnarskránni en fela það fyrst og fremst í sér að verið er að auka aðkomu almennings að lýðræðislegum breytingum sem snerta bæði þing og þjóð. Kjarni málsins er sá að hver sem niðurstaðan verður af þessum umræðum og þessari afgreiðslu þá er ekki verið að taka eitt eða neitt frá Alþingi vegna þess að það er að sjálfsögðu þjóðin sjálf sem hefur síðasta atkvæðið þegar að þessum breytingum kemur og hvort þær verða samþykktar eða ekki.

Til þess að nálgast þetta viðfangsefni, að greiða fyrir því að almenningur, þjóðin og kjósendur, fái aukna aðild að ákvarðanatöku, er verið að flytja frumvarp sem felur í sér fjórar greinar: 1. gr. fjallar um að staðfest sé að náttúruauðlindir séu þjóðareign, 2. gr. felur í sér aðferð til þess að auðvelda breytingar á stjórnarskránni, 3. gr. er um það að hægt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef tiltekinn fjöldi kjósenda fer fram á það og í 4. gr. er gert ráð fyrir því að boðað sé til stjórnlagaþings þar sem fjallað verður um hugsanlegar breytingar á eða endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og þar er um að ræða tímabundið leyfi. Það er ekki verið að taka þennan rétt af Alþingi heldur er verið að stofna til þessa stjórnlagaþings í tiltekinn stuttan tíma þar sem því er gert mögulegt að leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni og Alþingi hefur aðkomu að því máli með því að segja álit sitt á því, jafnvel tvisvar frekar en einu sinni. Og hvað sem stjórnlagaþingið segir fara slíkar tillögur, ef þær ná þá meiri hluta og jafnvel 2/3 meiri hluta á stjórnlagaþingi, í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins á ætt sína að rekja allt aftur til þess tíma sem við heyrðum undir hið danska konungdæmi. Breytingar voru að sjálfsögðu gerðar við stofnun lýðveldisins en að meginhluta hefur sú stjórnarskrá sem nú er við lýði verið sú sama í rúma öld. Samkvæmt stjórnarskránni sjálfri er ekki hægt að gera á henni breytingar nema að frumkvæði Alþingis, tillögu og samþykktar frá því. Síðan verður að bera það undir þjóðina í almennum kosningum og síðan aftur að samþykkja breytingarnar á því þingi sem næst er kosið. Þessi ferill á stjórnarskrárbreytingum hefur haft það í för með sér, það sýnir reynslan í rúma heila öld, að einungis hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskránni sem taka til kosninga og kjördæmaskipunar.

Margoft hafa verið gerðar tilraunir til þess að breyta stjórnarskránni en það hefur sjaldnast leitt til neins árangurs. Í fyrsta lagi vegna þess að ávallt hefur verið lögð áhersla á sátt og samkomulag á milli allra aðila og í öðru lagi vegna þess að stjórnmálaflokkarnir sem hafa átt fulltrúa á Alþingi hafa ekki komið sér saman, ýmist af pólitískum ástæðum eða vegna hagsmunaárekstra. Raunar má segja að í slíkum tilvikum sé um að ræða hálfgert neitunarvald í krafti eiginhagsmunagæslu. Valdið hefur með öðrum orðum verið í höndum Alþingis og þeirra flokka sem þar eru fyrir. Þetta vald hefur ekki verið úti í þjóðfélaginu heldur í höndum þingmanna stjórnmálaflokka sem hafa stjórnað og stýrt framkvæmdarvaldinu og innleitt ráðherraræði í vaxandi mæli. Valdið í þjóðfélaginu hefur með öðrum orðum færst til. Valdið í þjóðfélaginu hefur fjarlægst hinn almenna kjósanda og þar með lýðræðið. Og þetta er löngu viðurkennd staðreynd sem við verðum að horfast í augu við.

Herra forseti. Svo gerist það á Íslandi að þjóðfélagið og stoðir þess hrynja á einni nóttu — hrynja bókstaflega til grunna. Nú er ég ekki að segja að banka- og fjármálakreppan eigi sér skýringar í vitlausri stjórnarskrá eða úreltri. Hún ein og sér hefur ekki valdið þessu hruni. Hitt er nær sanni að ein skýringin sé sú, og þá staðreynd verðum við að horfast í augu við, að þingræðið hefur látið undan gagnvart framkvæmdarvaldinu og vægi almennings hefur verið afar takmarkað þegar kemur að stjórn landsins og stjórnsýslunni, leikreglunum og lögunum. Og það þrátt fyrir að það gefi augaleið að í upplýstu og menntuðu þjóðfélagi eigi þekking og skoðanir hins óbreytta borgara að leika miklu stærra hlutverk í almennri stjórnun á landinu. Þannig hefði þróunin átt að vera, að færa sem sagt valdstjórnina meira í þá lýðræðisátt sem að öðru leyti væri í samræmi við tíðaranda og almenna og eðlilega þátttöku þjóðarinnar í allri ákvarðanatöku.

Þetta ástand hefur leitt til miklu minna aðhalds gagnvart stjórnvöldum hverju sinni og eitt af því sem gerðist í haust, og var kannski þyngst á vogarskálunum, var sá sannleikur sem rann upp fyrir flestum að völdin á Íslandi voru í höndum fólks og flokka sem höfðu vanrækt að breyta þessum leikreglum, eða fóru þá ekki eftir þeim. Yfirlæti, kæruleysi og valdhroki í krafti þessarar stöðu sem stjórnendur þjóðarbúsins, atvinnulífsins, stjórnsýslunnar, fjölmiðla og allar aðrar ráðandi stéttir tóku þátt í olli því að kerfið og þeir sem héldu um stjórnartaumana veittu ekki nægilegt aðhald. Þeir gátu stjórnað af eigin geðþótta, látið sér fátt um finnast um hvað fólkið á götunni sagði eða sagði ekki, menn skákuðu sér og sínum til á taflborðinu, hirtu ekki um að setja sér skýrar reglur og deildu og drottnuðu í skjóli þess valds sem bæði atkvæði í kosningum og yfirburðarstaða í stjórnkerfinu öllu hafði fært þessum sömu mönnum. Þetta tímabil hefur einkennst af hollustu, þjónkun og meðvirkni. Andóf var kæft í fæðingu, bitlingum var úthlutað, sérhagsmunir varðir, kunningjakapítalismi var stundaður fyrir opnum tjöldum. Menn sofnuðu á verðinum af því að þeir þurftu ekki að verjast neinum nema sjálfum sér.

Hér er ég auðvitað fyrst og síðast að tala um Sjálfstæðisflokkinn og það valdanet sem hann hefur byggt upp í kringum sig og með sínu fólki. Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins hefur öðrum þræði viðurkennt þetta og landsfundur þessa sama flokks játaði þessa sök eða þessa ábyrgð upp á sig. Með þessu er ég ekki að segja að kjósendur eða stjórnendur Sjálfstæðisflokksins séu eitthvað verri en gengur og gerist eða verri en við öll hin. En kjósendur, stuðningsmenn og stjórnendur Sjálfstæðisflokksins urðu innlyksa í þessum valdaaðli og í þessum hagsmunatengslum og það er engin tilviljun að landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni hló og klappaði þegar fyrrverandi formaður flokksins gerði gys að andstæðingum sínum og þeim sem honum eru ekki þóknanlegir og kastaði smjörklípum í allt og alla. Sá hlátur var nefnilega bergmál þess hugsunarháttar sem því miður hefur ríkt og ráðið, að allir hinir sem ekki standa í þessari sömu halarófu séu eins og álfar út úr hól.

Þegar þjóðin vaknaði upp við þann vonda draum að kerfið var hrunið í krafti þess veruleika sem við þjóðinni blasti hófust útifundir — það hófst búsáhaldabylting sem var í rauninni ekkert annað en útrás fyrir reiði, kvíða og örvæntingu. Ég er ekki viss um að almenningur hafi strax þá gert sér grein fyrir orsökunum og ástæðunum fyrir þessari stöðu — hann vissi eiginlega ekki hverjir voru sökudólgarnir, fólk var ráðvillt og ruglað. Að undanförnu hefur athyglin beinst að einhverjum meintum sökudólgum, svo sem útrásarvíkingum og bankamönnum sem höfðu eignast auðæfi og aðstöðu til þess að mata krókinn. Ég legg engan dóm á það hvort þeir hafi brotið lög eða ekki brotið lög en þeir nýttu sér frelsið til að spila á leikreglurnar og fara fram hjá þeim, frelsi sem var og er án allrar ábyrgðar.

Það var í raun eftirtektarverður og sorglegur framhaldsþáttur sem átti sér stað á Alþingi fyrr í vikunni þegar til stóð að herða gjaldeyrishöftin af því að enn gengu menn lausir og reyndu að nýta sér leka og galla í þeirri löggjöf. Kannski löglegt en siðlaust. Þeir nýttu sér holurnar í lögunum sem gerðu þeim enn og aftur kleift að hagnast og misnota lög og reglur. Og á kostnað hverra? Á kostnað fjöldans. Enn og aftur heyktust sjálfstæðismenn hér á þingi á því að greiða atkvæði með lagabreytingunni á sínum eigin lögum um gjaldeyrishöftin sem voru til þess ætluð að koma í veg fyrir þennan leka. Og ekki verður nema ein ályktun dregin af þeirri afstöðu, Sjálfstæðisflokkurinn er enn við sama heygarðshornið og skilur ekki og áttar sig ekki á því hvar vandinn liggur.

Það er hins vegar áríðandi, herra forseti, og þess vegna nefni ég þetta, að Íslendingar átti sig á því að það eru ekki svokallaðir útrásarvíkingar eða bankamenn eða aðrir slíkir sem eru sökudólgarnir einir og sér. Ræturnar og forsendurnar fyrir hruninu voru þær að valdið og stjórn þjóðfélagsins var orðin rotin í samþjöppuðu og áralangri drottnun hjá sama valdahópnum. Það verður líka að halda því til haga, og ekki láta það liggja milli hluta, að aðrir flokkar stigu þennan dans — voru hækjur í þessum samfellda valdaferli. Alþýðuflokkurinn á sínum tíma, Framsóknarflokkurinn í 12 ár og nú síðast Samfylkingin. Sjálfstæðisflokkurinn gat pikkað út þá sem honum sýndist og sennilega hefur enginn pólitískur máttur getað stöðvað þessa hraðlest enda datt engum í hug að efna til búsáhaldabyltingar á meðan þessi hrunadans átti sér stað.

Nú ætla ég ekki að fara að halda því fram, herra forseti, að þetta sé einasta ástæðan fyrir hruni bankanna og skipbroti þjóðarinnar. Ég ætla heldur ekki að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur sé einn og sérstakur blóraböggull. Þetta getur í raun og veru átt sér stað að því er varðar hvern og einn stjórnmálaflokk sem fer of lengi með of mikil völd. Þetta er sagt af minni hálfu við þessa umræðu til aðvörunar og umhugsunar, til þess að við getum lært af þessari dýrkeyptu reynslu. Ég held að það frumvarp sem hér er flutt sé afsprengi þeirrar reynslu sem dregin er af ferlinum og sögunni að undanförnu. Þessar vangaveltur mínar eru ekki settar fram til að efna til deilna við þingmenn eins eða annars stjórnmálaflokks né heldur ætla ég að ríghalda í þessar skoðanir sem einhvern stórasannleika, aðrar söguskoðanir verða ugglaust bornar fram. En ég vil hins vegar koma þessum sjónarmiðum á framfæri hér í þingtíðindum nú þegar ég er á förum af þingi innan nokkurra daga. Megi það svo verða viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar að rýna í þessa dapurlegu atburðarás í íslensku stjórnmála- og efnahagslífi.

Herra forseti. Það er deginum ljósara að þegar þjóðin stendur frammi fyrir þessu áfalli og þarf í rauninni á áfallahjálp að halda er ekki óeðlilegt að upp komi kröfur um endurskoðun og uppgjör við þessa fortíð og við þá aðila sem setið hafa við stjórnvölinn og haldið um stjórnartaumana. Þjóðin stendur á tímamótum og heimtar að menn axli ábyrgð, og m.a. er þar krafa um uppstokkun á stjórnkerfinu, á lögunum, eftirlitinu og hinum pólitísku öflum þar á meðal hér á Alþingi. Er nema von að þessi krafa sé sett fram og er við öðru að búast? Það er við þessar kringumstæður og í ljósi þessara aðstæðna sem það frumvarp sem hér er til umræðu er borið fram. Í frumvarpinu er gerð tilraun til að koma til móts við þá lýðræðiskröfu, við samtímann, og til móts við fálmkennd og örvæntingarfull viðbrögð fólksins í landinu á þann veg að aðkoma almennings og hins óbreytta borgara verði auðveldari og sjálfsagðari, að rödd hins óbreytta borgara heyrist, að Alþingi sitji ekki eitt að þeim völdum að breyta stjórnarskrá eða efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæði vegna þess að Alþingi hefur ekki staðið undir þeim væntingum að breyta stjórnarskránni og líka af því að Alþingi á ekki að vera einrátt um að hafa forustu eða frumkvæði að nýjum og öðrum leikreglum.

Þetta frumvarp er flutt og borið fram til að koma til móts við þjóðina, ekki til að móðga einn eða neinn eða til að brjóta gamlar hefðir um einhverja ímyndaða allsherjarsátt um slíkar breytingar, allt slíkt tal er að mínu mati út í hött. Andstæðingar þessa frumvarps verða að skilja að fortíðin er að baki, hefðir víkja fyrir þeim algeru tímamótum sem við stöndum frammi fyrir. Það er nýtt þjóðfélag sem þarf að rísa upp úr þessum rústum og almenningur vill og verður að fá að taka þátt í hinu nýja samfélagi og hið nýja lýðræði verður að hafa nýja skírskotun sem ekki verður umflúið.

Eins og ég rakti í upphafi er þetta frumvarp tiltölulega einfalt í sniðum. Þetta eru fjórar greinar, fyrst og fremst framsal ákvarðanatöku og tilraun til þátttöku íslensku þjóðarinnar í mótun nýrrar stefnu. Hún vill fá að taka þátt og eiga rétt á því að hafa frumkvæði að því að breyta reglum og lögum og, eftir atvikum, stjórnarskránni sjálfri. Í þessum þáttum frumvarpsins eru greinar sem kveða á um einfaldari leiðir til þess að breyta stjórnarskránni, beita þjóðaratkvæðagreiðslu og til að skapa vettvang til að ræða og leggja til hvernig stjórnarskránni skuli breytt.

Fyrir utan þessar lýðræðislegu kröfur er lagt til í 1. gr. að staðfest sé í stjórnarskránni að náttúruauðlindir séu í þjóðareign. Þær má ekki láta af hendi eða selja með varanlegum hætti. Þetta ákvæði í 1. gr. er ekki nýtt af nálinni, auðlindanefndin síðan lagði þetta til fyrir um tíu árum, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa lagt fram frumvarp sama efni. Nú standa fjórir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi að þessari tillögu um að staðfest sé í stjórnarskrá að náttúruauðlindirnar séu og verði í þjóðareign, enda hlýtur það að vera sjálfsögð krafa að eignarhald þjóðarinnar á þessum auðlindum verði staðfest í sjálfri stjórnarskránni. Íslenska þjóðin háði ekki þorskastríð sín til annars en að endurheimta og slá eign sinni á fiskinn í sjónum eða halda menn að þau átök og samhugur Íslendinga á sínum tíma hafi verið vegna þess að þessi verðmæti yrðu síðan eign annarra en þjóðarinnar allrar?

Andstæðingar þessa frumvarps halda því fram að ekki megi breyta stjórnarskránni nema í fullri sátt og auðvitað væri það æskilegast. En ef þessari skoðun er haldið til streitu og hún gerð forsenda fyrir stjórnarskrárbreytingum er að mínu mati næsta víst að sú sátt er langt undan og varla miklir möguleikar á að neinar breytingar verði gerðar á stjórnarskrá, að minnsta kosti á meðan fulltrúar sérhagsmunagæslunnar eiga fulltrúa á þingi og innan stjórnmálaflokkanna. En hvað sem líður allri sátt og allsherjarsamkomulagi hefur reynslan sýnt það í gegnum árin og áratugina að það samkomulag strandar langoftast á og vegna sérhagsmunagæslu í stjórnmálaflokkunum sem hafa enn sem komið er úrslitaorð um hvort að breytingar verða gerðar eða ekki.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar á stjórnarskránni geti borið að og orðið að veruleika með auðveldari hætti en nú tíðkast og ég heyri það, bæði í umræðunni og í nefndinni, að það er ekki mikið ágreiningsatriði og er sjálfsagt lýðræðislegt framfaraspor.

Í 3. gr. er svo opnað fyrir að tiltekinn fjöldi landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er í samræmi við þann málflutning sem ég hef haldið uppi, að aðkoma almennings eigi að vera auðveldari og meiri að slíkum breytingum en að lög gera ráð fyrir eins og er.

Í 4. gr. frumvarpsins er síðan fjallað um stjórnlagaþingið og ég viðurkenni það hreinskilnislega í þessari umræðu að ég hef haft mínar efasemdir um útfærslu og skipulag á þessu þingi að því er varðar bæði tíma og starf. Nú hafa verið gerðar breytingar á þessu ákvæði sem eru allar í rétta átt. Í grundvallaratriðum styð ég hugmyndina um stjórnlagaþing að því leyti að mér finnst það svara kalli tímans og er þá um leið djörf hugmynd um að koma hreyfingu á umræðu og tillögur um breytingar á stjórnarskrá. Það er kannski í og með vegna þess að Alþingi hefur einfaldlega ekki ráðið við það verkefni og flokkarnir ekki heldur. Það umboð sem stjórnlagaþingið fær er tímabundið, settir eru varnaglar um aðkomu Alþingis og rétt þess til þess að koma fram með athugasemdir og aðrar tillögur eftir atvikum. Ég held því að það sé bæði með axlabönd og belti. Það sem skiptir kannski langmestu máli í þessari grein, sem og í öllum hinum, er að það er þjóðin sem hefur síðasta orðið.

Ég vil að lokum gera athugasemd við ummæli hv. þm. Björns Bjarnasonar áðan um að við séum að skjóta okkur í fótinn með því að það sé ekki samræmi í greinum um breytingar á stjórnarskrá vegna ákvæðisins um stjórnlagaþingið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög auðvelt að gera efnislegar breytingar og það standist alveg að gerðar séu efnislegar breytingar á stjórnarskipunarlögum nú á þessu þingi. Það fer síðan í almennar kosningar og er það verkefni næsta þings að staðfesta þær breytingar ef sú verður niðurstaðan. Síðan á næsta ári, eða hvenær sem það verður dagsett, verða breytingarnar lagðar fyrir þingið til meðferðar og það hefur sinn gang, eins og frumvarpið gerir að öðru leyti ráð fyrir.

Herra forseti. Ég lýsi því yfir sem flutningsmaður að þessu meirihlutanefndaráliti að ég styð framgang þessa frumvarps.