136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:35]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú fer hún að verða enn undarlegri þessi umræða en verið hefur hingað til. Ég fæ ekki betur heyrt en hv. þingmaður sé fylgjandi því að auðlindir séu í sameign þjóðarinnar. Þjóðareign er í sjálfu sér ekkert annað en einhvers konar tegund af ríkiseign þar sem einkennið er það að bannað er að láta eignina varanlega af hendi. Það er ekkert annað sem í þessu felst. Menn geta auðvitað skrifað bækur og haldið langar ræður um óskýrleika. Það er hins vegar ekki þannig, ekki nema menn vilji gera það.

Í annan stað er hv. þingmaður einnig sammála því að auka aðkomu almennings að ákvörðunum í þessu landi. Það hefur þegar komið fram að þeir eru sammála 2. gr. og það hefur einnig komið fram að þeir eru tilbúnir að breyta stjórnarskránni nema þeir vilja að stjórnlagaþingið sé ráðgefandi en ekki tillögugefandi. Ég hlýt þá að spyrja: (Gripið fram í.) Hvað veldur öllum þessum hávaða, öllum þessum látum hér í ræðustól Alþingis og löngum ræðum, ef staðreyndin er sú og veruleikinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn er meira (Forseti hringir.) og minna sammála (Gripið fram í.) þessum breytingum. (Gripið fram í.)