136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:18]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því að hér hafi þessi mál verið rædd af einhverju yfirlæti. Það er af og frá. Hins vegar er það þannig og hv. þingmaður spurði hver munurinn væri á því að almenningur eða þjóðin kysi til stjórnlagaþings eða almenningur eða þjóðin kysi til Alþingis? Það er enginn sérstakur munur á því. Ég er sammála hv. þingmanni.

En í hverju liggur þá grundvallarmunurinn á afstöðu okkar? Ef enginn munur er á því að þjóðin kjósi til stjórnlagaþings og að þjóðin kjósi til Alþingis, hvar liggja þá bágindin? Í báðum tilvikum er það þjóðin sjálf sem velur sér fulltrúa til að sinna ákveðnum verkefnum.

Ég verð að segja: Hvar liggja bágindin? Hver er vandinn? Ég hef kallað eftir svörum við því til að skilja afstöðu sjálfstæðismanna svo við getum komið til móts við þá. Ég trúi ekki að þeir séu bara í fýlu af því að ekki hefur verið nægilega mikið við þá talað. Ég trúi því ekki að afstaða þeirra byggi á því. (Forseti hringir.) En þess vegna (Forseti hringir.) kalla ég eftir þessari efnislegu (Forseti hringir.) umræðu og ég er sammála hv. þingmanni. (Forseti hringir.) Það er enginn munur á þessu.